138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skildi ég þingmanninn rétt, hann kannski endurtekur þá svarið fyrir mig, skildi ég hv. þingmann rétt að hann sjái ekkert athugavert við það að Jón Sigurðsson hafi verið skipaður í þessa stjórn bankans? Maður sem líklega hefur hvað mest verið með puttana í þessum Icesave-málum og er meðal annars, hv. þingmaður, á auglýsingaspjaldi, auglýsingablaði Landsbankans fyrir Icesave-reikningana í Hollandi. Þar er þessi ágæti maður, sem ég efast ekki um að sé, sem er greinilega eini efnahagslegi ráðgjafi Samfylkingarinnar, það er alveg ljóst.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig í ósköpunum stendur á því að hann veit ekki hver endanleg niðurstaða er, hvað við þurfum að borga endanlega af Icesave-reikningunum ef málið er svona skýrt? Hvernig getur þetta mál verið mjög skýrt, hv. þingmaður, ef hv. þingmaður hefur ekki hugmynd um það hversu mikið við þurfum að borga endanlega?