138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mikið vinsemdarsvar, ég skal reyna að vera kurteis. Er það þá þannig að fall Landsbankans og þar af leiðandi sú staða sem við erum hér í varðandi Icesave tengist á engan hátt því allsherjarbankahruni sem varð hér á Íslandi? Er það svo að t.d. hryðjuverkalögin spili ekkert þarna inn í? Erum við bara í einhverju tómi út af þessu máli? Tengist þetta ekki því að hér varð allsherjarbankahrun að mati hv. þingmanns?

Ég tel að þetta sé einhver grundvallarmisskilningur og ég er eiginlega búin að sjá það nú í þessari umræðu að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna virðast vaða í algjörri villu og svíma varðandi málið, virðast misskilja það í grundvallaratriðum og þá er alvarlegust sú ræða sem hæstv. félagsmálaráðherra hélt hér í gær, Árni Páll Árnason, og jafnframt grunnforsenda fjármálaráðherra fyrir því að leggja þetta mál fram er sú yfirlýsing sem var undirrituð gagnvart Hollandi á sínum tíma, sem nú hefur verið leitt í ljós, m.a. með rökum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að var í rauninni marklaus, núllstillt, eftir að Brussel-viðmiðin komu til sögunnar. (Gripið fram í.)