138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er líka rangt hjá hv. þingmanni að ég hafi nokkurn áhuga á því að hún sé dóttir mín og enn vitlausara að ég hafi nokkurn áhuga á því að kenna henni mannasiði, enda er mér til efs að það sé hægt. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki áhuga á að bæta háttsemi hennar í þessum sal er óskaplega einföld, ég tel að málflutningur hennar keyri svo úr hófi að hann eigi töluverðan þátt í því að við það sem ættu að vera kjöraðstæður nær Framsóknarflokkurinn ekki flugi. Ég held að málflutningur hv. þingmanns, og hann sker sig frá málflutningi annarra þingmanna Framsóknarflokksins, sé ein af ástæðunum fyrir því að flokkurinn nær sér ekki á flug. (GBS: Þetta er ómálefnalegt.) Hv. þingmanni má það í léttu rúmi liggja þó að mér finnist slæmt að hún skuli hér í skjóli þinghelgi bæði hafa kallað mig landráðamann, lygara og blekkingameistara en ég verð bara að þola það. Hins vegar er það þannig að ræður hv. þingmanns einkennast af engu öðru en innantómum spuna. Þær ræður sem hv. þingmaður hefur hér flutt varða ekki efni málsins, þær eru bara persónulegar ávirðingar.