138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fer að hafa gaman af því hve mikið hæstv. utanríkisráðherra hrósar mér. Mikill er máttur minn að ég geti haft fylgi heils stjórnmálaflokks í hendi mér. Ég vil minna hæstv. utanríkisráðherra á (Gripið fram í.) að fylgi Framsóknarflokksins stendur í tæpum 20% þannig að hann skal frekar óttast þann flokk en vera að gera lítið úr honum.

Ég vil minna á að hæstv. utanríkisráðherra hefur farið mikinn í mörgum ræðum síðan ég settist inn á þing. Hann hefur margoft hrósað mér fyrir hvað ég hef sett mig vel inn í málin sem ég tek þátt í að tala um. Er mér sérstaklega minnisstætt það hrós sem hæstv. utanríkisráðherra dældi yfir mig þegar ESB-málið var til umræðu og ber hann mikla virðingu fyrir þekkingu minni á því sviði þannig að eitthvað er farið að hlaupa stress í stjórnarflokkana nú þegar þessi atkvæðagreiðsla nálgast.

Ég hef tekið eftir að Samfylkingin er ekki lengur á mælendaskrá þó að hún hafi fengið málið í gær. Það er kannski út af því að orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi formanns flokksins, eru eitthvað að ergja þá eða kannski sú staða að fyrrverandi ráðherra flokksins sé kominn inn í bankaráð eins bankans.