138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, svo virðist vera sem hv. þingmaður hafi sett sig ágætlega inn í málin. Ég vil beina ákveðnum spurningum til hv. þingmanns vegna þess að ég hef í þessari umræðu verið að reyna að koma því á framfæri að mér virðist sem ríkisstjórnarflokkarnir byggi allan málflutning sinn á misskilningi. Þá er ég að tala um þann misskilning sem kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra þegar hann talaði um að minnisblað sem undirritað var við Hollendinga sé grundvöllurinn að því að ríkisstjórnin hafi þurft að fara þessa leið. Það hefur komið fram að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, — fyrrum flokksfélagar hennar hafa nú reyndar afneitað því með öllu að hún hafi nokkuð til málanna að leggja — hefur bent á að þetta minnisblað hafi fallið úr gildi með sameiginlegri yfirlýsingu Íslendinga og nokkurra annarra þjóða, þ.e. Brussel-viðmiðunum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvaða áhrif það hafi haft að horfið var frá þessari afstöðu með fráhvarfi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur úr Samfylkingunni, hvaða áhrif það hafi haft á þá niðurstöðu sem við stöndum frammi fyrir. Ég hef verið hugsi yfir því hvort skynsemin hafi einfaldlega yfirgefið Samfylkinguna með því að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét af störfum sem formaður. Ég hef þá m.a. í huga ummæli hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar fyrr í dag þar sem hann blæs á allt það sem sú ágæta kona hefur til málanna að leggja og gerir hálfgert grín að því hve oft við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, höfum vitnað til orða hennar hér. Þetta er einfaldlega stjórnmálamaður sem hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag og ég ber mikla virðingu fyrir henni. Hún er ein af okkar skeleggu konum, okkar Íslendinga, og þess vegna finnst mér illa að þeirri ágætu konu vegið af fyrrum samflokksmönnum hennar.