138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er þetta mál allt þannig vaxið að hér hrundi heilt bankakerfi, að sjálfsögðu. Þetta mál byggist allt á þessari tilskipun í EES-samningnum og það voru kratar, forverar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn, sem komu því í gegnum þingið að við urðum aðilar að þeim samningi. Út af því þurftum við að taka upp þessa reglugerð sem er svo umdeild í þessu Icesave-máli.

Hvenær ætlar ríkisstjórnin að fara að skoða þau rök sem liggja fyrir í málinu? Ég vona að hún hlusti líka á þá fræðimenn sem starfa hér á landi, hún virðist ekki geta tekið nokkurt jákvætt atriði frá stjórnarandstöðunni. Það er t.d. Magnús Ingi Erlingsson lögfræðingur sem vinnur á Seðlabankanum. Hann fer yfir það að við berum alls enga ábyrgð þessum skuldbindingum því að reglugerðin gildi ekki um heilt bankahrun. Hvenær ætlar ríkisstjórnin að skilja þetta? Ég veit það ekki en ég ber þá von í brjósti og ég trúi á það kraftaverk að það verði áður en nýr dagur rís.