138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir hennar ræðu. Hún var yfirgripsmikil enda hefur hv. þingmaður mjög mikla þekkingu á þessu máli og er alltaf gaman að hlusta á þingmenn sem hafa sett sig vel inn í málin. Við höfum gagnrýnt það í stjórnarandstöðunni að stjórnarliðar hafa ekki talað mikið í þessu máli og ber oft og tíðum á þekkingarskorti á því þegar þeir koma í ræðustól. Stjórnarliðar fengu skyndilega málið aftur í gær en svo hafa þeir misst það á ný. Það er kannski út af því að stjórnarandstaðan hefur verið að spyrja um atriði varðandi fyrrverandi formann þeirra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, eða jafnvel krafið samfylkingarfólk um svör varðandi hvað þeim finnst um það að fyrrverandi ráðherra þeirra leiðir bankastofnun, fyrrverandi virkur aðili í Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum þegar hrunið varð, en það er önnur saga.

Hv. þingmaður talaði um tilskipun 94/19/EB sem við þurftum að lögleiða með lögum nr. 98/1999 sem er upphafið og endirinn að öllu þessu Icesave-máli því að það er fyrst og fremst vegna hennar sem Bretar og Hollendingar krefja okkur um þessar greiðslur, þ.e. að sú tilskipun mundi ná yfir bankahrun, sem við í stjórnarandstöðunni erum í það minnsta ósammála.

Lögfræðingur nokkur, héraðsdómslögmaður með meistarapróf í Evrópurétti, starfar hjá Seðlabanka Íslands og skrifar grein í eigin nafni í Morgunblaðið í dag en tekur það fram að þessi grein lýsi ekki endilega áliti Seðlabankans á málinu. Ég veit að þingmaðurinn hefur lesið þessa grein og hún styður raunverulega allan okkar málflutning. Meðal annars vitnar lögfræðingur þessi í skýrslu franska seðlabankans frá árinu 2000 þar sem ekki er talið að evrópska tryggingarkerfið eigi að taka á kerfishruni. Er þingmaðurinn ekki nokkuð sammála því sem þarna kemur fram? (Forseti hringir.) Og er þetta ekki góð heimild að fá þessa grein þar sem maðurinn er héraðsdómslögmaður með meistarapróf í Evrópurétti?