138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:22]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst og hefur fundist þetta vera alveg makalaust mál allt saman og makalaust málflutningur hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar. Ég ætla að rifja það upp þingheimi til upplýsingar að hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir þegar þessir fyrirvarar höfðu verið samþykktir að þeir rúmuðust innan samningsins. Hæstv. utanríkisráðherra sagði að það þyrfti reyndar að beita skapandi hugsun en taldi samt að þetta væri fullgerlegt.

Lengi vel í sumar var talað um að ekki væri hægt að gera neinar breytingar, það væri ekki hægt að gera neina fyrirvara og það tók lengstan tíma að draga hv. þingmenn Samfylkingarinnar að því verki og það var bara þolinmæðisverk að gera það. En forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar töldu að þessir fyrirvarar rúmuðust innan samningsins. En varðandi þetta ákveðna ákvæði sem hv. þingmaður vísar til þá snýst það náttúrlega um að Alþingi er með þessu að leggja skýra áherslu á að það sé óumsemjanlegt lágmark um það sem næst mest fram. Það var aldrei nokkurn tíma rætt í fjárlaganefnd að þetta ætti að vera eitthvert sérstakt samningsefni. Þetta var lágmarkskrafa Alþingis sem sett var fram handa þessum viðsemjendum en af gögnum málsins má skýrt ráða að strax í upphafinu ákváðu Íslendingar undir forustu þessarar ríkisstjórnar að hopa gagnvart Bretum og Hollendingum og láta þá enn og aftur hafa frumkvæði og yfirhöndina í þessum samningaviðræðum og ég fullyrði, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, að á okkar löngu ævi, Íslendinga á þessari eyju, hefur sjaldan verið gefið jafnhressilega undan viðsemjendum og þarna var gert.