138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:27]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held ekki að fjárlaganefnd hafi setið nótt og dag í sumar við að smíða þessa fyrirvara til þess eins að láta segja sér áður en málið var tekið úr nefndinni að þeir yrðu ekki samþykktir. Þessi skoðun hv. þm. Guðbjarts Hannessonar að þau gögn sem hann hefur undir höndum er þá hans skoðun og gögn hans sem ekki hafa verið rædd sérstaklega í fjárlaganefnd og voru alls ekki rædd þá nótt sem þessir fyrirvarar voru samþykktir í nefndinni og við afgreiddum málið þá út í sameiningu, stjórn og stjórnarandstaða, eitthvað annað en gerðist hér rétt fyrir jólin þegar menn rifu málið með þjósti út úr nefndinni eins og gert var.

Ég vil segja varðandi þessa fyrirvara og afstöðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar að þetta hafi þá bara verið einhvers konar leikrit sem sett var af stað í sumar, sennilega til að róa stjórnarandstöðuna og ákveðinn arm Vinstri grænna. Ef hann lítur svona á málið, þá finnst mér heldur illa komið fyrir okkur þingmönnum ef þetta er viðhorfið til þeirrar vinnu sem þarna fer fram. En ég vil hins vegar ekki gera mér neitt upp um skoðanir Guðbjarts Hannessonar. Hann svarar því bara sjálfur fyrir sig. Ég get hins vegar upplýst að þetta var ekki rætt í nefndinni.

En hvað varðar fyrirvarana sjálfa og viðbrögð Breta og Hollendinga, þá held ég að það hefði verið betra þegar fyrir lá að Bretar og Hollendingar ætluðu sér ekki að samþykkja þessa fyrirvara að þingið hefði þá verið upplýst um það sérstaklega og menn hefðu tekið afstöðu til þess hvað ætti að gera í því sambandi. Eins og ég sagði áðan var aldrei nokkurn tíma vilji meiri hluta fjárlaganefndar sem stóð nánast heil að þessu máli, það var aldrei vilji hennar að þessir fyrirvarar væru eitthvert sérstakt samningsefni. Það er grundvallaratriði í málinu og enn og aftur segi ég það, í tvígang hefur verið freklega gengið fram hjá skýrum vilja Alþingis í þessu afdrifaríka máli fyrir Íslendinga og það finnst mér það dapurlegasta við allt þetta mál.