138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur fyrir andsvar hennar. Það eru ekki bara svik við alla þingmenn að þetta kemst upp og alla þjóðina að við höfum verið beitt blekkingum, þetta eru náttúrlega fyrst og fremst svik við þingmenn Vinstri grænna, samstarfsflokk Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni. Þetta er alger trúnaðarbrestur að þingmenn hafi verið látnir fara í gegnum þessa atkvæðagreiðslu með þessum hætti. Svo mikill var spuninn að ríkisfjölmiðillinn fullyrti það fram í andlát atkvæðagreiðslunnar að framsóknarmenn væru einangraðir, einir á móti í Icesave-málinu. Svo kemur það í ljós að flokkur hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur situr hjá við atkvæðagreiðsluna og þá varð upplausnarástand í þinginu, þingmenn Vinstri grænna brugðust mjög reiðir við, sumir hverjir. Svona var spuninn alla tíð. Og svo viðurkennir hv. þm. Guðbjartur Hannesson í gær að það hafi verið vitað að ekki yrði gengið að þessum fyrirvörum, enda segir hann í andsvari við mig í gær, með leyfi forseta:

„Varðandi það sem samþykkt var í haust […] var eitt sem við klikkuðum illilega á, það var þegar við settum það klára skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust.“

Þetta smellpassar við orð hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur, þar sem hann lítur svo á að fjárlaganefnd og þingið hafi klikkað illilega á því að setja þetta skýra skilyrði inn að Bretar og Hollendingar þyrftu annaðhvort að samþykkja eða synja þessum fyrirvörum.

En Bretar og Hollendingar setja ekki lög hér á landi, það voru sett lög á Íslandi og lög eru ekki til samningsgerðar erlendis. Lögin héðan eiga að standa enda eru þau lög í gildi. Þess vegna er þessi aðkoma með Icesave-málið í annan hring inn í þingið til skammar fyrir íslensku ríkisstjórnina. Þetta er ekki Alþingi Íslendinga bjóðandi.