138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:54]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ef að líkum lætur verða á morgun greidd atkvæði á Alþingi um ríkisábyrgð á Icesave-lánunum illræmdu. Þingið skiptist í tvær fylkingar í málinu, í meginatriðum í stjórn og stjórnarandstöðu. Undantekning frá þessu eru nokkrir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hugsanlega hv. þm. Þráinn Bertelsson. Í fljótu bragði gæti mönnum virst að hér sé um hefðbundinn mótþróa stjórnarandstöðu í umdeildu máli að ræða, að stjórnarandstaðan leyfi sér þann munað að vera á móti í erfiðu máli sem enginn vill í raun og sanni styðja. Svo er þó alls ekki.

Um hvað snýst þá málið í raun? Það er mat mitt að enginn kjósi með ríkisábyrgðinni af sannfæringu. Menn líta einfaldlega þannig á málið að þessu verði að taka eins og hverju öðru hundsbiti, það séu ábyrg stjórnvöld sem leiði málið til lykta, þegar Icesave-málið sé frá sé hægt að snúa sér að endurreisninni af fullum þunga. Þá eru einhverjir þingmenn sem trúa því að ef Ísland gangi í Evrópusambandið með undirritaðan samning muni sambandið létta bagganum af Íslendingum ef hann reynist of þungur og því felist óveruleg efnahagsleg áhætta í að samþykkja hann. Þetta er grundvallarmisskilningur og ef einhverjir þingmenn láta slíka draumóra ráða atkvæði sínu er illa komið.

En af hverju skyldi ég kveða svo fast að orði? Eitt erfiðasta verkefni ríkjanna sem mynda Evrópusambandið er að halda aftur af freistni aðildarríkja til að yfirskuldsetja sig. Við upptöku evrunnar fyrir um áratug voru settar sameiginlegar reglur um fjárlagahalla og skuldasöfnun aðildarríkjanna. Bann var lagt við því að sambandið kæmi ríkjum sem safnað hefðu of miklum skuldum til bjargar. Þessar reglur virkuðu ekki sem skyldi þrátt fyrir að háar sektir væru lagðar á þau ríki sem brutu reglurnar. Þá trúðu leikendur á fjármálamarkaði því að sambandið mundi koma ríkjum til bjargar ef illa færi þrátt fyrir bann. Þeir gerðu því lítinn greinarmun á áhættu ríkisskulda, til að mynda Þýskalands og Grikklands, og endurspeglaðist það greinilega í skuldatryggingarálagi landanna. Rétt eins og Angela Merkel benti á væru það hagsmunir allra að forða einu ríki sambandsins frá gjaldþroti, gjaldþrot eins ríkis mundi grafa undan sameiginlegum gjaldmiðli. Þetta var viðtekin skoðun innan Evrópusambandsins og hjá markaðsaðilum allt þar til fjármálakreppan sem nú geisar hóf að kræla á sér. Vandamálið við reglurnar felst í því að hegðun ríkis innan sambands breytist frá því sem var þegar ríki stóðu utan þess þar sem nú treysta menn á að hin aðildarríkin komi til hjálpar ef illa fer, rétt eins og við heyrum suma þingmenn tala um í sambandi við það að Evrópusambandið létti skuldunum af Íslendingum.

Í raun er þetta nákvæmlega sama vandamál og þjóðir heims standa frammi fyrir vegna flugrána. Ef samið er við einn flugræningja fjölgar flugránum. Til að fækka flugránum fylgja þjóðir því þeirri meginreglu að semja ekki við flugræningja. Til að eyða þessu freistnivandamáli þarf reglufestu. Ef ríkjum er bjargað af sambandinu fjölgar þeim ríkum sem haga sér á ábyrgðarlausan hátt í fjármálum. Þú semur ekki við flugræningja og þú borgar ekki skuldir gjaldþrota ríkja. Þetta er í grunninn vandamálið sem Grikkland stendur frammi fyrir núna. Ef sambandið kemur til hjálpar geta ríki eins og Spánn, Írland og Ítalía breytt hegðun sinni með afdrifaríkum afleiðingum fyrir myntsamstarfið í Evrópu. Þróun á skuldatryggingarálagi mismunandi ríkja innan Evrópusambandsins bendir eindregið til þess að þessu séu markaðsaðilar nú óðum að átta sig á. Munur á skuldatryggingarálagi Grikklands og Þýskalands endurspeglar í dag að fyrrnefnda landið er mun ótryggari skuldari en það síðarnefnda. Það borgar enginn skuldir Grikkja nema Grikkir sjálfir.

En hvaða þýðingu hefur þetta fyrir Icesave-samninginn? Jú, það er óskhyggja að halda að Evrópusambandið muni koma Íslendingum til hjálpar ef við ráðum ekki við að greiða Icesave í framtíðinni. Staða okkar verður því sennilega verri að þessu leyti innan sambands en utan. Sambandið verður að sýna reglufestu og því er það röng forsenda sem þingmenn gefa sér þegar þeir halda að Evrópusambandið muni reynast okkar hálmstrá ef illa fer. Þvert á móti, sambandið getur ekki komið til hjálpar þar sem það þarf að sýna reglufestu af fyrrnefndum ástæðum. Að fórna Íslandi er óverulegur kostnaður miðað við þann kostnað sem hlytist af því að aðildarríkin breyttu hegðun sinni. Að fórna einni flugvél fyrir margar er ásættanlegt. Þetta kom berlega í ljós þegar Íslandi var fórnað síðasta haust í þágu innlánstryggingakerfis Evrópu.

En hvað með að samþykkt ríkisábyrgðarinnar flýti endurreisninni og því sé rétt að afgreiða málið hið snarasta? Í þessari forsendu felst einnig grundvallarmisskilningur. Vissulega væri einu vandamálinu færra í dag ef Icesave væri frá og aðilar á fjármálamarkaði gætu með meiri vissu metið hvort lána beri Íslandi til endurreisnarinnar eður ei en þar með er ekki öll sagan sögð. Nægilega margar vísbendingar hafa komið fram sem benda í þá átt að lífskjörum muni hraka mjög á næstu árum ef landið þarf að standa undir skuldabyrðinni sem Icesave fylgir. Fáir efast um að Ísland geti staðið við skuldbindinguna en það verður þá á kostnað einhvers annars. Hér gilda hin augljósu sannindi að sömu krónunni verður ekki eytt oftar en einu sinni. Hrakandi lífskjörum fólks fylgir fólksflótti og landið getur þannig hæglega fest í vítahring versnandi lífskjara og landflótta. Um þetta orsakasamband eru nægjanlega mörg dæmi úr efnahagssögu heimsins til að hægt sé að líta fram hjá því.

En hvað með að hafna samningnum? Augljóst er að það mun gera endurreisnina erfiðari í bráð. Óvissan sem fylgir höfnun fælir frá erlenda fjárfestingu og viðheldur vantrú á Íslandi á fjármálamörkuðum erlendis. Ísland yrði að byggjast upp á því sem aflað er innan lands. Til lengri tíma litið munu lífskjör þó verða betri, mun betri þar sem ekki þyrfti að standa undir skuldabyrðinni vegna Icesave. Krónan sem hefði verið eytt í Icesave verður veitt í fjárfestingu innan lands og þar með hagvöxt og bætt lífskjör.

Af framansögðu má sjá að samþykkt felur í sér skammtímaábata en verri lífskjör til lengri tíma litið. Höfnun felur aftur á móti í sér að kreppan lengist eitthvað en framtíðarhorfurnar batna til muna. Valið snýst því á milli skammtíma- og langtímasjónarmiða. Í því felst sennilega ástæðan fyrir því að stjórnarflokkarnir vilja almennt samþykkja ríkisábyrgðina. Meginhugsun þeirra virðist þannig vera byggð á skammtímasjónarmiðum, þ.e. að halda völdum.

Hér hef ég reifað ólík sjónarmið á nokkuð einfaldaðan hátt. Forsendan sem hér hefur verið gefin er að ef samningnum verði hafnað muni Icesave ekki lenda á Íslendingum en það er auðvitað mjög mikil einföldun. Fáir ef nokkrir þeirra þingmanna sem vilja hafna samningnum eru þeirrar skoðunar að við eigum alfarið að hafna kröfunni um að borga. Andstaðan beinist fyrst og fremst að sjálfum samningnum og þeim mistökum sem gerð voru í samningaferlinu. Bretar og Hollendingar nýttu sér veika stöðu Íslendinga síðasta haust á óbilgjarnan hátt og stjórnvöld fylgdu því eftir með því að lyppast niður fyrir viðsemjendum. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa er þetta?) Því á að hafna samningnum og semja upp á nýtt með aðild allra stjórnmálaflokka þrátt fyrir að það hafi kostnað í för með sér til skamms tíma eins og ég hef rakið. Ef ekki semst á að fara með málið fyrir dómstóla eins og siðuðum mönnum sæmir. Stjórnmálaöflin verða öll að bera ábyrgð á nýjum samningum því að annars myndast óbrúanleg gjá til framtíðar í íslenskum stjórnmálum. Þetta mál er stærra en hagsmunir einstakra stjórnmálaafla. Þetta mál varðar efnahagslega framtíð þjóðarinnar. Það er því skylda allra þingmanna að hafna þessu frumvarpi þrátt fyrir að völdin séu sæt.