138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og kom fram í máli hans var forsendan fyrir samanburðinum sú að ef samningnum væri hafnað þyrfti ekki að greiða vegna þessara skuldbindinga. Það er sem sagt eins og vandinn hverfi við að segja „nei“ eins og sumir stjórnarandstöðuþingmenn hafa haldið fram í þessari umræðu. Vegna þess að hv. þingmaður er skynugur maður í efnahagsmálum tekur hann síðan fram að það sé auðvitað mikil einföldun og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar gangi auðvitað ekki út frá því og ætlist ekki til þess að farið sé frá málinu án þess að borga. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvað hefur þá hv. þingmaður í huga að rétt sé að borga? Væri hann tilbúinn til að samþykkja að greiða lágmarksinnstæðutrygginguna ef vextirnir væru lægri en þeir eru í þessum samningi? Eða ef greiðsluskilmálarnir væru með einhverjum öðrum hætti? Eða teldi hann rétt að greiða hluta af lágmarkstryggingunni? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hann mundi ljúka þessu máli gagnvart viðskiptalöndum okkar þannig að farsælt væri?