138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikil einföldun að það eina sem ég sé ósáttur við í þessu séu vextirnir. Ég er mjög ósáttur við að þetta sé einkaréttarsamningur, ég er ósáttur við að það skuli ekki vera samið um þetta mál á pólitískum grunni og að þetta skuli vera einfaldir samningar embættismanna eins og um hefðbundið viðskiptasamband sé að ræða.

Smáatriði, segir hv. þingmaður þegar hann talar um að deilan snúist um vexti. (HHj: Verulegar upphæðir.) Já, verulegar upphæðir, afsakið að ég skyldi leggja hv. þingmanni þessi orð í munn. Ég tel það enga smámuni t.d. að vera með breytilega vexti í staðinn fyrir fasta vexti. Ég sýndi fram á og kom með útreikninga í ræðu á dögunum þar sem ég sýndi fram á að það munar 100 milljörðum við tiltölulega einfaldar forsendur. Það munar einum þriðja. Ég tala ekki um ef við færum niður í 1,5%. Þessi saga um að hér fari allt í kalda kol ef samningnum verður hafnað og gengið aftur til samninga er hrein og klár lygasaga. Það er ekki verið að fara að afnema gjaldeyrishöft. Það er talað um að það taki tvö til þrjú ár. Þeir gjalddagar sem gjaldeyrisvarasjóðurinn á að mæta eru árið 2011. Íslensk fyrirtæki fá ekki lán erlendis og munu ekki fá lán erlendis fyrir að við tökum á okkur enn þá meiri skuldir. Þetta hefur ekkert með einkaaðila að gera. Að samþykkja þessa samninga mun sáralitlu máli skipta. Það mun skipta einhverju máli en sáralitlu og það mun skipta mestu máli fyrir hæstv. utanríkisráðherra því þá getur hann staðið hnarreistur með (Gripið fram í.) kollegum sínum erlendis.