138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:17]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram að síðasta andsvari var umræðan nokkuð málefnaleg en þá tóku frasarnir við, eftir að hv. þingmaður var orðinn rökþrota. Ljóst er að ef ekki nást betri samningar en þessir verður dómstólaleiðin farin, það er algerlega ljóst en það er seinasta úrræðið af öllum. Þegar menn tala um að eyða óvissu — það er vissulega rétt að þessir samningar eyða óvissu fyrir Breta og Hollendinga en þeir setja íslenskt efnahagslíf til langs tíma í algera óvissu vegna þess að við vitum ekki hver hagþróunin verður á Íslandi. Hv. þingmaður veit, eða á alla vega að vita það, að ef skuldabyrðin verður jafnmikil og lítur út fyrir að verði þýðir það háar afborganir, mikla greiðslubyrði fyrir Ísland og að hér verður fjárfest miklu minna en ella.

Svo er annað mál að við sjálfstæðismenn erum sammála um að breikka skattstofnana. Hv. þingmaður breytti þó ekki eftir því þegar hann veitti glórulausum skattahugmyndum ríkisstjórnarinnar brautargengi í kosningu á dögunum, langt í frá. Áhugi hans á breiðum skattstofnum er því meiri í orði en á borði.