138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti Varðandi skilyrðin sem hv. þingmaður ræðir um og segist vera ósammála mér um má kannski segja að það er frekar óvenjulegt í löggjöf að setja beinlínis inn í lögin áskilnað um að stjórnvöld skuli afla samþykkis annarra aðila í þessu tilfelli viðsemjenda okkar. Það var gert í þessu tilfelli, það er frekar óvenjulegt, og ég leit svo á og lít svo á enn þá að í þessu hafi falist að stjórnvöld ættu að gera Bretum og Hollendingum grein fyrir hvað fólst í lagasetningu Alþingis, þeim fyrirvörum sem þar voru settir, og afla stuðnings eða samþykkis þeirra við þá. Við gátum auðvitað ekki sagt í íslenskum lögum að Bretar og Hollendingar skyldu fallast á þá og nú kom í ljós að þeir felldu sig ekki við alla skilmálana og þá urðu íslensk stjórnvöld að sjálfsögðu að takast á við þá stöðu sem þar með var komin upp. Það var gert með því að fara með málið á nýjan leik inn í þingið og gera þinginu grein (Forseti hringir.) fyrir því hvað út af stóð og þá er það pólitískt mat hvað menn vilja og hvernig menn vilja taka á þeirri stöðu sem þá var komin upp.