138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Í 2. umr. um þetta frumvarp sást lítið til stjórnarliða. Þeir skutu hins vegar einstaka sinnum upp kollinum á meðan umræðan fór fram í fjölmiðlum og þá yfirleitt fyrst og fremst til að halda því fram að ekkert nýtt hefði komið fram í umræðunni og henni ætti því að fara að ljúka. Þetta fullyrtu þeir án þess að hafa nokkra hugmynd um það vegna þess að ég held að það sé óhætt að fullyrða að mjög fáir stjórnarliðar hafi fylgst með 2. umr. þessa máls. Það er eiginlega staðfest núna þegar þessir stjórnarliðar treysta sér loksins til að koma upp í ræðustól og segja nokkur orð um málið að 2. umr. þess og raunar umræða um þetta mál í samfélaginu sem átt hefur sér stað undanfarnar vikur og mánuði hefur algerlega farið fram hjá þeim. Enn halda þeir fram rökum, ef rök skyldi kalla, sem löngu er búið að sýna fram á að standist ekki — og ekki bara stjórnarandstaðan heldur jafnvel Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sjálfur sem hefur verið að mati stjórnarliða helsti gerandinn í þessu máli og ástæða þess að það eigi að fallast á þetta allt saman.

Tökum sem dæmi þá fráleitu staðhæfingu, sem kom fram fyrst þegar samningurinn var kynntur en var síðan fyrir löngu búið að slá út af borðinu, að það að fallast á Icesave-skuldbindingarnar eða gera þessar kröfur að skuldbindingum mundi styrkja gengi krónunnar. Þetta er augljóst, það þarf ekki hagfræðinga heldur bara fólk með sæmilega rökhugsun til að sjá að verulegar auknar skuldbindingar í erlendri mynt eru ekki til þess fallnar að styrkja gjaldmiðil viðkomandi þjóðar. Það er mjög einföld stærðfræði sem liggur þar að baki. Engu að síður leyfðu menn sér að halda því fram að það að ganga frá þessu mundi á einhvern hátt styrkja ímynd landsins, rétt eins og bankarnir gerðu með því að reyna að kaupa sér ímynd, og það mundi þá verða til þess að hærra verð kæmi á krónuna. Sem sagt, menn mundu kaupa sér falska ímynd fyrir krónuna með því að ganga að þessum kröfum.

Nú hafa meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabankinn, þær tvær stofnanir sem ríkisstjórnin hefur helst vitnað til í þessu máli, lýst því yfir að ekki aðeins mundi krónan haldast veik næstu 10 árin a.m.k. — þeir treystu sér ekki til að spá lengra enda má leiða að því líkur að menn geri ráð fyrir að þetta verði jafnvel áratugi eftir það miðað við forsendurnar sem eru gefnar. Það er búið að lýsa því yfir að ekki aðeins muni krónan haldast veik heldur sé það forsenda þess að menn geti staðið undir skuldbindingunum að krónan haldist veik. Þessar miklu skuldir þjóðarinnar muni sem sagt halda krónunni veikri, sem eðlilegt er, en það sé líka forsenda þess að hægt sé að standa undir þeim vegna þess að þá sé hægt að reka Ísland sem eins konar verstöð, framleiðsluþjóðfélag þar sem allt fer í að framleiða sem mest til útflutnings en flytja sem allra minnst inn.

Hvaða áhrif hefur það á lífskjör almennings í landinu? Sú umræða hefur kannski farið svolítið fyrir ofan garð og neðan þegar menn festa sig í því að spyrja spurningarinnar: Getum við borgað þetta? Einhverjir komast að þeirri niðurstöðu með miklum ólíkindaforsendum að það ætti að vera hægt ef afgangur af viðskiptum við útlönd verður fjórfaldur metafgangur ár eftir ár eftir ár, eins og Seðlabankinn reiknaði með. Þá væri þetta hægt. En hverjar eru afleiðingarnar? Við hefðum kannski frekar átt að ræða það. Hvers konar þjóðfélag verður þá til? Þá er verður búið til láglaunasamfélag sem mun eiga mjög erfitt með að keppa við önnur lönd um fólk sem getur unnið hvar sem er. Það má nefna sem dæmi lækna, hjúkrunarfræðinga, verkfræðinga og raunar eru mjög margar starfsstéttir orðnar þannig að fólk á auðvelt með að flytja sig milli landa. Þetta leiðir til einhverrar hættulegustu keðjuverkunar sem þjóðfélag getur staðið frammi fyrir. Færeyingar kynntust þessu á sínum tíma í sinni kreppu sem þó var ekki eins djúp og okkar og þeir hafa í rauninni ekki náð sér enn. Þessar aðstæður er verið að skapa hér. Það kemur beinlínis fram í forsendum Seðlabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og þar af leiðandi ríkisstjórnarinnar sem byggir álit sitt á þessum forsendum, að Ísland verði einhvers konar láglaunaframleiðslusamfélag þar sem lífskjör haldist lök miðað við það sem er í löndunum í kringum okkur, til þess að við getum flutt þeim mun meira út og borgað skuldirnar. Þetta er í raun mjög einfalt dæmi. Þegar menn skuldsetja sig með þessum hætti, þegar ríkið skuldsetur sig umfram getu þarf að nota verðmætasköpunina til að borga niður þær skuldir. Þá nýtist verðmætasköpunin ekki þegnunum. Ég er dálítið hræddur um að fáir muni láta bjóða sér það, eigi þeir kost á vinnu á tvöföldum eða þreföldum launum annars staðar.

Önnur fullyrðing og álíka fáránleg er um lánshæfismatið. Stjórnarliðar hafa jafnvel komið upp í ræðustól og haldið því fram að þessi umræða væri hættuleg vegna þess að hún gæti orðið til þess að lánshæfismat fyrirtækja lækkaði matið á Íslandi. Þessi fyrirtæki hafa því miður reyndar orðið fyrir töluverðum álitshnekki því að þau spáðu alltaf rangt fyrir um stöðu fyrirtækja og ríkja fyrir upphaf fjármálakrísunnar en hvað um það. Það getur skipt máli að lánshæfismatið sé í lagi varðandi lánakjör. Hverjar eru forsendur þess að lánshæfi ríkja sé metið viðunandi? Hvað er nr. 1, 2 og 3 í þeim efnum? Það er að ríkið sé ekki of skuldsett og allra síst mega ríki skuldsetja sig um of í erlendri mynt. Að halda því fram að aukin skuldsetning muni styrkja lánshæfismatið er álíka fáránlegt og fullyrðingarnar um styrkingu gjaldmiðilsins sem nú hafa verið slegnar út af borðinu af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabankanum. Engu að síður leyfa menn sér að koma hingað upp og halda þessu fram, jafnvel núna eftir að lánshæfismatsfyrirtækið Fitch, sem oftast hefur verið vitnað í því þeir hafa verið furðu viljugir til að tjá sig við fulltrúa ríkisstjórnarinnar, hefur staðfest óbreytt lánshæfismat. Þetta fór fyrir brjóstið á hæstv. viðskiptaráðherra sem kvartaði undan því að þetta fyrirtæki hefði ekki ætlað að staðfesta lánshæfismatið fyrr en búið væri að ganga frá Icesave. Þarna var sem sagt að mati hæstv. viðskiptaráðherra verið að skemma síðasta hálmstráið, síðustu rökin fyrir því að það yrði að afgreiða þetta Icesave-frumvarp sem voru að ella mundum við ekki fá óbreytt lánshæfismat heldur yrðum felld um flokk.

Þá hafa stjórnarliðar haldið því fram í 3. umr., og enn einu sinni koma menn með gömul rök sem fyrir löngu hefur verið svarað, að við þurfum að fallast á þessar Icesave-skuldbindingar, gera nákvæmlega þessa samninga að skuldbindingum til að geta fengið lán annars staðar frá. Við þurfum sem sé, eins og bankarnir gerðu á sínum tíma, að auka skuldirnar enn þá meira til að geta haldið áfram að velta vandanum á undan okkur og tekið enn meiri lán annars staðar. Nú liggur fyrir að það var ekki rétt sem stjórnarliðar fullyrtu að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mundi ekki hefja aðra endurskoðun á stöðu Íslands og Norðurlöndin mundu ekki afgreiða til okkar lán, eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, ef við kláruðum ekki Icesave nákvæmlega eins og Bretar og Hollendingar ætluðust til, vegna þess að það er búið að afgreiða lánin. Það strandar bara á því að Íslendingar fari fram á meiri greiðslu. Raunar eru Norðurlöndin búin að veita vilyrði fyrir greiðslu lánanna en Seðlabankinn ekki búinn að draga á lánin nema að nokkru leyti.

Þegar þessi rök eru öll farin út um gluggann fara menn út í óljósari hræðsluáróður eins og að lýsa því einfaldlega yfir að það að samþykkja ekki þessa samninga eins og Bretar og Hollendingar vilja skapi svo mikla óvissu. Þetta er furðuleg röksemdafærsla. Að menn eigi að láta allt yfir sig ganga vegna þess að jafnvel þótt þeir tapi öllu og verði við öllum kröfum gagnaðilanna sé það þó skárra en sú óvissa sem felist í því að fara fram á réttláta málsmeðferð. Vandinn er hins vegar sá að þessir samningar eins og þeir liggja fyrir skapa gífurlega óvissu í stað þess að eyða henni. Það liggur ekkert fyrir um hversu mikið verður greitt eða hvað kemur upp í þrotabú Landsbankans. Það liggur ekkert fyrir um hversu lengi þetta stendur og hvernig gjaldmiðillinn þróast. Reyndar vitum við að hann helst veikur en hversu veikur vitum við ekki. Áhættan er gríðarlega mikil og óvissan eykst við að ganga frá þessum samningum, rétt eins og það að ganga frá þessum Icesave-samningum felur ekki í sér að rutt sé úr vegi hindrun fyrir endurreisn efnahagslífsins. Þvert á móti er verið að festa í sessi hindrun sem kemur í veg fyrir að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Bara þetta eitt sem ég nefndi áðan með gjaldmiðilinn og þróun hans er nóg til að festa í sessi skuldir nánast allra íslenskra fyrirtækja því þau eru meira og minna skuldsett í erlendri mynt, sem og stórs hluta íslenskra heimila sem eru með erlend lán. Reyndar líklega einnig allra íslenskra skuldsettra heimila vegna þess að lágt gengi krónunnar ýtir undir verðbólgu og við vitum öll hvaða áhrif það hefur á verðtryggð lán landsmanna. Þarna er því verið að festa í sessi meginhindrunina fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs sem er skuldsetningin. Þetta er skuldakreppa og það er ekki aðeins verið að taka óhemju há lán sem menn vita ekki hvernig þeir ætla að borga til baka heldur líka að festa í sessi og jafnvel auka enn við þau lán sem hér eru fyrir vegna þess að gengið helst veikt. Það þarf ekki mín orð fyrir því, það er nóg að hlusta á það sem meira að segja Seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, þeir sem ríkisstjórnin byggir mál sitt á, segja sjálfir.

Ef þessi óljósi hræðsluáróður dugar ekki til, hvað er þá eftir? Jú, líklega það sem þessi ríkisstjórn hefur sérhæft sig í sem eru frasarnir. Innihaldslausu frasarnir eins og frasi nr. 1 — ég held að þetta hljóti að vera aðalfrasi ríkisstjórnarinnar í þessu máli og öðrum — að við verðum að klára þetta á þann hátt sem Bretar og Hollendingar vilja til að ná sátt við alþjóðasamfélagið. Þetta er fráleit fullyrðing. Að halda því fram að menn eigi að láta hvað sem er yfir sig ganga og ekki einu sinni að leita réttar síns, ekki einu sinni að biðja um að samið sé á sanngjörnum nótum, því nú liggur fyrir í mati breskra lögfræðinga að þetta er óhemju ósanngjarn samningur. Ef menn láti svo lítið sem biðja um að samið sé um það á sanngjörnum nótum séu þeir á einhvern hátt að segja sig úr alþjóðasamfélaginu, og iðulega er talað um alþjóðasamfélagið eins og það sé með stóru a-i. Alþjóðasamfélagið er, ætla ég að vona, samfélag ríkja sem flest, alla vega ráðandi ríkin, vilja að leikreglurnar séu skýrar, það sé farið eftir lögum og reglum og diplómatískum leiðum. Enda er mjög erfitt að skýra þennan málflutning ríkisstjórnarinnar fyrir útlendingum. Það er sama hvort maður hittir erlenda stjórnmálamenn, blaðamenn og ég tala ekki um lögfræðinga. Þetta hljómar fáránlega þegar maður reynir að útskýra fyrir þeim að ástæðan fyrir því að íslensk stjórnvöld vilji fallast á þennan afleita samning, sem allir geta verið sammála um að sé afleitur, sé einhvers konar ótti við alþjóðasamfélagið, að þá verði okkur refsað. Hvernig urðu menn svona litlir í sér?

Til gamans fletti ég upp — ekki bara til gamans heldur líka af nauðsyn í þessu máli — gömlum deilum af landhelgisdeilunni, þorskastríðinu sem stundum hefur verið sett í samhengi við þetta mál. Það voru ekki alltaf allir sammála um það mál í íslenskri pólitík. Kratarnir hótuðu að sprengja stjórnina árið 1958 þegar Framsóknarflokkurinn vildi segja upp samningi við Breta frá 1901 og hefja það sem síðar urðu þorskastríðin. Kratarnir hótuðu að sprengja þá stjórn. Hvers vegna? Vegna þess að þeir vildu umfram allt vera í náðinni hjá alþjóðasamfélaginu. Þeir sögðu: Hvað ef sett verður löndunarbann, hvað ef þetta og hitt gerist? Við getum ekki tekið þá áhættu, sögðu þeir. Ef kratar hefðu farið með völd á þeim tíma og síðar væru Bretar, Hollendingar, Spánverjar og fleiri þjóðir að veiða inni í öllum fjörðum vegna þess að menn vildu ekki standa á rétti sínum.

Staða okkar í þessu máli er hins vegar miklu sterkari. Áður vorum við hugsanlega að krefjast einhvers sem ekki var augljóslega réttur okkar en hér er ekki verið að biðja um annað en að við verjum, eða a.m.k. bendum á, lagalegan rétt okkar í málinu í stað þess að takast á herðar óhemju miklar skuldbindingar fyrir hönd framtíðarkynslóða Íslendinga. Skuldbindingar sem urðu slíkar að bara vextirnir, sem alltaf munu lenda á Íslendingum sama hvað kemur upp í þrotabú Landsbankans, eru yfir 100 millj. kr. á hverjum einasta degi. Það þýðir niðurskurð upp á meira en 100 millj. á dag, ár eftir ár eftir ár, miðað við það sem ella hefði verið. Er ekki þess virði að berjast til að koma í veg fyrir slíkt?