138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég útskýrði í ræðu minni felur samþykkt Icesave-frumvarpsins í sér stöðnun, það felur í sér hindrun fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs og það nægir að nefna eitt atriði sem er það að það viðheldur lágu gengi krónunnar sem er grunnforsenda þess — hvort sem menn ætla að taka upp evru eða ekki, einhliða eða með inngöngu í Evrópusambandið. Það breytir ekki því að það verður að styrkja gengi gjaldmiðilsins og þessi samningur tryggir það að gjaldmiðillinn helst veikur þannig að bæði aukast þá skuldirnar, beinar skuldir og eins þær skuldir sem fyrir eru. En það mætti nefna fjölmörg önnur atriði því til útskýringar hvers vegna þetta kemur í veg fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs í stað þess að flýta fyrir henni á einhvern hátt.

Eitt eru gjaldeyrishöftin. Ég hef heyrt nokkra stjórnarliða nefna það hér, sem rök fyrir því að samþykkja ætti þetta Icesave-frumvarp, að þá væri hægt að afnema gjaldeyrishöftin. Þeir sömu stjórnarliðar ættu kannski að tala við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fá þá til að útskýra það sem þeir útskýrðu fyrir þingflokki framsóknarmanna, að hægt væri að borga þessar Icesave-kröfur. Hvernig? Jú, með því að flytja mjög lítið inn og mjög lítið út og viðhalda gjaldeyrishöftunum lengur en menn áætluðu. Þannig að ef menn ganga frá þessu frumvarpi og samþykkja það eru þeir ekki að losa um gjaldeyrishöftin. Nei, þeir eru að tryggja að þau þurfa að vara lengur en áætlað var. Svo leyfa menn sér að koma hingað upp með einhverja innihaldslausa frasa um alþjóðasamfélagið eða þá algerar þversagnir eins og þá að það að auka verulega skuldir ríkis sem stendur frammi fyrir skuldakreppu muni á einhvern hátt auðvelda endurreisn efnahagslífsins.