138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Grein Magnúsar Inga Erlingssonar í dag er einmitt dæmi um það sem við höfum verið að segja. Þar koma fram endalaus sjónarmið, vel rökstudd sjónarmið, sem ýta undir þann málflutning sem við í stjórnarandstöðunni höfum haft uppi. En menn vilja ekki hlusta. Þetta er lögfræðingur hjá Seðlabankanum, hann skrifar þetta í eigin nafni, tekur það sérstaklega fram og ég spyr: Af hverju? Má hann ekki einu sinni skrifa að hann sé lögfræðingur Seðlabankans? Verður hann að taka það sérstaklega fram að hann skrifi þetta í eigin nafni? Af hverju?

Ég undirstrika það og tek undir með Magnúsi Inga Erlingssyni að þetta er það sem við sjálfstæðismenn höfum sagt: Það hefur aldrei legið fyrir að við þurfum að samþykkja þessa ríkisábyrgð, aldrei, ekki samkvæmt evrópskum rétti og ekki samkvæmt íslenskum rétti, aldrei. En á þetta mátti ekki láta á reyna. Það má vel vera að það sé eins og sumir hafa verið að segja að við erum að taka á okkur samning án dóms og án laga í rauninni — án lagagrundvallar (Gripið fram í.) þangað til núna, án dóms og laga.

Við vitum, ef við förum yfir söguna, að síðasti Íslendingurinn sem var tekinn af lífi án dóms og laga, að mati Jóns Sigurðssonar, var Jón Arason, af því að hann leyfði sér að fara gegn almættinu í Danmörku. Við ætlum ekki að vera meðal einhverra síðustu Íslendinga, hæstv. utanríkisráðherra. Við ætlum að standa í lappirnar. Það er þess vegna sem ég ætla að fara yfir þau orðaskipti sem hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, átti við hv. þingmann í gær. Vinnubrögðin eftir sumarið voru til fyrirmyndar. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eftir sumarið voru ömurleg og þau eru að eyðileggja þetta mál. Þau áttu og höfðu það í hendi sér að benda á okkur í stjórnarandstöðunni, á forustumenn okkar, og segja: Komið þið með okkur. Axlið þið ábyrgð þverpólitískt. Við hefðum aldrei getað komist undan því að gera það, aldrei. Þetta mál átti að vinna áfram þverpólitískt. En nei, (Forseti hringir.) framkvæmdarvaldið tók málið til sín og klúðraði því, algerlega, ömurlega.