138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að fara aðeins betur ofan í þá spurningu sem var nr. 2 hjá mér áðan þar sem þetta verður sett í samhengi. Sjálfstæðismenn komu mjög sterklega að gerð þessara fyrirvara og greiddu atkvæði sitt í góðri trú þann 28. ágúst þótt þeir hafi setið hjá gagnvart frumvarpinu í heild. Förum aðeins yfir þetta.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, eins og aðrir þingmenn, unnu að þessum fyrirvörum og skilmálum í góðri trú. Það kom líka á daginn að það myndaðist þarna samstaða. Framsóknarflokkurinn ákvað að hafna þessu þá í atkvæðagreiðslunni. Það kom fram í svari hv. þm. Guðbjarts Hannessonar í gær við andsvari hjá mér að þeir vissu þetta nóttina sem þetta gerðist að Bretar og Hollendingar mundu ekki samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust. Það var skilyrði samanber 2. mgr. 1. gr. laganna, eins og ég fór yfir áðan. Svo segir hann:

„Við vissum þetta nóttina sem þetta gerðist. Ég fékk tölvupósta frá málsmetandi mönnum sem sögðu: Nú fór þetta yfir mörkin. Við ræddum það á þeim tíma. Við tókum áhættuna. Ég treysti á að við næðum þessu og talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað hefði ég annað átt að gera? Átti ég að fara að segja að þeir mundu ekki halda? Ég talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað átti ég annað að gera?“

Þá spyr ég hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur: Eru þetta ekki svik við þá þingmenn sem unnu að þessum fyrirvörum? Er þetta ekki svik við alla þingmenn sem sátu á Alþingi, því að þarna var ríkisstjórnin vísvitandi að fara fram með mál sem hún vissi að væri fallið? Eru þetta ekki svik við þjóðina því að þarna, 28. ágúst í sumar, hefði ríkisstjórnin líka verið fallin? Hvað finnst hv. þingmanni um þessar splunkunýju upplýsingar sem hv. formaður fjárlaganefndar missti út úr sér í gær?