138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég met það svo að hv. þingmaður hafi verið að beina til mín spurningunni: Er einhver valkostur, hver er sá valkostur?

Jú, það er auðvitað heila málið að það er val í þessum málum. Valið stendur enn á ný um það sem var í ágústmánuði, þ.e. að við setjum fram kröfur okkar í málinu af því að um er að ræða pólitíska niðurstöðu og pólitísk niðurstaða gat aldrei og getur ekki orðið sú að við Íslendingar eigum að bera allan hallann af málinu, að við eigum að borga allan reikninginn upp í topp með vöxtum. Það er ekki pólitísk niðurstaða. Það er sama niðurstaða eins og við hefðum farið til dómstóls og tapað málinu, þannig að sú lausn sem nú liggur fyrir er ekki pólitísk lausn, hún er afarkostur. Gallinn við þá lausn er að hún getur valdið því til mjög langs tíma að lífskjör á Íslandi skerðist mjög. Hún getur valdið okkur gríðarlegum búsifjum og gert alla endurreisn á Íslandi mjög erfiða.

Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að mjög líklegt er að það muni valda okkur til skamms tíma vandamálum ef við höldum áfram og stöndum á okkar rétti. En þá verða menn að bera það saman við og meta það hvað það þýðir fyrir okkur ef til lengri tíma er horft að gangast undir þessar gríðarlegu skuldbindingar sem eru í erlendri mynt, sem fela í sér alveg gríðarlega gengisáhættu, fela í sér mikla áhættu sem snýr að verðbólguþróun á Íslandi og í Bretlandi og Hollandi, sem hefur mikið að gera með það hvernig hagvöxtur muni þróast á Íslandi til næstu áratuga. Þannig verðum við að horfa á þetta og, herra forseti, ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa hugsað þetta mál eins vel og ég mögulega get að ekki sé uppi sá valkostur að láta undan þessum óbilgjörnu kröfum Breta og Hollendinga.