138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:33]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrstu vil ég segja hreint og klárt, af því að það kom fram í ræðu hv. þingmanns, að ég tel að það séu enn þá til staðar náin tengsl á milli AGS-endurskoðunar, láns frá Norðurlöndunum og lúkningar Icesave. Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að við tryggðum fyrstu endurskoðun með því við værum með tryggan meiri hluta fyrir málinu á þingi. Endurreisnin veltur því á lúkningu Icesave.

Það er rétt hjá þingmanninum að hér er spurning um mat. Mitt mat er, eftir að hafa komist að pólitískri og efnahagslegri íhugun á málinu, að okkur beri að leysa þetta vegna þess að það er mikilvægt fyrir okkur að ná viðspyrnu í kreppunni. Þá eigum við miklu meiri möguleika á því að standa skil á Icesave og öðrum skuldbindingum okkar. Við getum þá alltaf endurskoðað hlutina eftir sjö ár því að efnahagslegir fyrirvarar eru til staðar. (Gripið fram í: Nú.) Það er þá alltaf hægt að taka upp málið ef svo fer að kreppan verði djúp því að ljóst er að það er mikilvægt fyrir okkur að stækka kökuna sem allra fyrst, breikka skattstofnana og greiða af Icesave í hagvexti frekar en að fara leið hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem telja að betra sé að taka áhættu á því að dýpka kreppuna í von um að fá betri samning. Ég er ósammála því og það er mat mitt að betra sé að hefja viðspyrnu sem allra fyrst og ná þannig að breikka skattstofnana til að við náum að koma atvinnulífinu í gang á nýjan leik.