138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við erum við lokaumræðu um hið svokallaða Icesave-mál sem er eitt stærsta mál sem Alþingi Íslendinga hefur tekist á hendur í sögu lýðveldisins. Það er því ekkert óeðlilegt við það að þeir þingmenn sem starfa í umboði þjóðarinnar skuli vilja ræða ítarlega um þetta mál enda er hér um að ræða stærstu fjárskuldbindingu sem íslenskur almenningur hefur gengist undir á síðari tímum. Það er í ljósi þess sem við hér, þá sérstaklega aðilar í stjórnarandstöðunni, höfum viljað fara mjög ítarlega ofan í alla þætti þessa máls, hver réttarstaða okkar er og hvað við getum gert sem fulltrúar íslensku þjóðarinnar til að við komum sem best út úr þeim pytti sem við erum nú óneitanlega stödd í vegna skuldbindinga einkafyrirtækja úti í bæ sem íslenskir skattgreiðendur virðast nú þurfa að fara að greiða.

Við höfum barist mikið fyrir því að kalla fram ýmis sjónarmið úr samfélaginu, frá lögfræðingum, hagfræðingum og alþjóðlegum sérfræðingum, og allan þann tíma sem við höfum krafist slíkra gagna höfum við legið undir því ámæli að hér sé mikið málþóf í gangi. Helst hefðum við þurft að vera búin að afgreiða þetta mál fyrir lifandi löngu, helst á upphafsstigum þess. En það vill svo til að eins og þetta mál lítur illa út í dag og er að mörgu leyti vanreifað að okkar mati er það þó illskárra en það var þegar samninganefnd fjármálaráðherra kom heim í vor með glæsilega niðurstöðu að eigin sögn. Stjórnarliðar komu hingað upp og sögðu hver á fætur öðrum: Þetta á að samþykkja, margir jafnvel án þess að hafa lesið samninginn. Séu menn einhvern tíma, að mínu mati, að bregðast því mikla trausti sem almenningur ætti að hafa á okkur hér og þessum störfum eiga menn ekki að vinna með þeim hætti sem raun bar vitni.

Hvert var upphafið að allri þessari vegferð og hvernig hefðum við átt að standa að þessu stóra máli? Það var ekkert leitað til stjórnarandstöðunnar þegar farið var í upphaflegan leiðangur til að semja við Breta eða Hollendinga. Ríkisstjórnin ákvað einhliða hvernig samninganefnd Íslendinga yrði skipuð. Þrátt fyrir að stjórnarandstaðan, sem tæplega helmingur þjóðarinnar kaus, sitji á Alþingi fékk hún engu ráðið um það með hvaða hætti við mundum senda flokk frá okkur út í lönd til að ræða við þaulþjálfaða samningamenn Breta og Hollendinga, því miður.

Eins og ég sagði áðan kom síðan þessi dæmalausa niðurstaða eftir fyrri viðræður sem lyktaði í vor og upphófust miklar umræður á Alþingi sem enduðu með því, eftir að stjórnarandstæðingar höfðu talað fyrir mörgum sjónarmiðum, að þvert á flokka var farið í vinnu til að móta samningsmarkmið eða skilyrði sem Alþingi mundi setja gagnvart þessum samningum. Menn voru ekkert að leita eftir einhverjum nýjum samningum með þeirri löggjöf sem þar var samþykkt, síður en svo. Við settum afarkosti er snertu skilyrði Íslendinga vegna þessara miklu skuldbindinga, þar á meðal takmarkanir fyrir því hversu mikið við eigum að borga á næstu 16 árum upp í þessa samninga einkafyrirtækis úti í bæ.

Þegar Alþingi samþykkti þetta með drjúgum meiri hluta atkvæða á Alþingi sendi ríkisstjórnin á nýjan leik viðræðunefnd til Hollands og Bretlands. Hver varð niðurstaðan af því, hv. þm. Björn Valur Gíslason? Niðurstaðan af þeim vinnubrögðum varð sú að menn héldu áfram uppteknum hætti. Ekki var talað við stjórnarandstöðuna þá um að hún mundi tilnefna aðila í samninganefnd fyrir hönd Íslands til að ræða við Hollendinga eða Breta, nei, ríkisstjórnin ákvað að gera þetta áfram ein. Hver var niðurstaðan af því? Jú, við ræðum hér nýtt frumvarp til laga sem felur í sér að það er búið að útþynna þau skilyrði sem Alþingi samþykkti með lögum sem eru vel að merkja enn í gildi, lögum sem við samþykktum á Alþingi. Það er einfaldlega ekki viðunandi að komið sé þannig fram við íslenska þjóð og þingmenn í stjórnarandstöðu sem hafa lagt gríðarlega mikla vinnu á sig á undangengnum mánuðum til að reyna að bæta það erfiða mál sem blasir við okkur öllum.

Eftir að seinni samninganefnd ríkisstjórnarinnar hafði farið út virtust ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir, eftir að hafa beitt þingflokka sína miklum þrýstingi, hafa ákveðið að málið skyldi fara í gegn eins og það leit út þá. Málsmeðferðin var slík í nefndum þingsins eftir að málið kom þar inn að lítill tími var gefinn til þess að við fengjum að fara málefnalega yfir málin. Okkur var neitað um að kalla á fundi nefndanna — og þá á ég við efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd — tiltekna gesti til að fara betur ofan í hið nýja mál í ljósi þess að það var búið að breyta því í grundvallaratriðum með því að útþynna þessa skilmála. Í kjölfarið, eftir að málið hafði verið tekið út úr nefndum í óþökk minni hlutans í þinginu, hófst hér mikil umræða eins og frægt er orðið.

Margar ræður okkar snerust um að það hefði verið viturlegra og gáfulegra að klára alla efnislega umfjöllun málsins í nefndunum frekar en að taka það hálfkarað inn í almenna umræðu á vettvangi þingsins. Auðvitað er það ekki góður svipur á störfum þingsins þegar menn standa hér klukkustundum saman til að fara yfir mál sem við hefðum betur farið yfir á vettvangi nefndanna. Það varð svo samkomulag um að taka málið upp á milli 2. og 3. umr. innan nefnda þingsins, og var það vel að okkar mati í minni hlutanum að við næðum því þó í gegn eftir mjög einbeitta umræðu hér. Það olli mér aftur á móti miklum vonbrigðum að meiri hlutinn skyldi engu að síður, eftir að samningar náðust um það með hvaða hætti við ætluðum að afla okkur gagna, hafa ákveðið að taka málið út úr nefndum fyrir jól án þess þó að viðamikil gögn er snerta þetta mál, hagsmuni íslensku þjóðarinnar, lægju fyrir.

Þar vil ég m.a. nefna merkilega skýrslu sem nýlega hefur komið fram og er áhættugreining er snertir Icesave-samninga og skuldabyrði þjóðarinnar. Efnahags- og skattanefnd Alþingis bað fyrirtækið IFS Greiningu um að fara í gegnum þennan mikilvæga þátt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur talað fyrir svo mánuðum skiptir að nauðsynlegt væri að fara í. Þrátt fyrir að þetta álit lægi ekki fyrir var ákveðið að taka málið út úr fjárlaganefnd þingsins til 3. umr., lokaumræðu, en nú liggur þessi skýrsla fyrir og þar kemur margt athyglisvert í ljós.

Það var kannski eins gott að við höfðum ekki samþykkt þessa samninga fyrr en þetta lá þó fyrir, að við gerum okkur þó grein fyrir því hvað við erum að skrifa undir, en á seinni stigum málsins hefur komið á daginn að mikil gjaldeyrisáhætta fylgir þessum samningum. Það var ekki gert ráð fyrir gjaldeyrisáhættu í mati Seðlabankans á Icesave-samningunum sem birt var í júní 2009 en nú er ljóst að þróun gengis íslensku krónunnar er einn af aðaláhættuþáttum Icesave-samningsins. Við höfum séð á undangengnum mánuðum að gengi krónunnar hefur veikst mikið frá aprílmánuði og ég vil taka sem dæmi að frá 22. apríl hafa Icesave-samningarnir hækkað um 55,3 milljarða kr. vegna gengislækkunar krónunnar. Þetta eru slíkar upphæðir að það er ekki fyrir venjulegt fólk að átta sig á umfangi þess.

Til samanburðar má reka Landspítala – háskólasjúkrahús fyrir um 30 milljarða kr. á einu ári. Það eru engar smáræðisupphæðir sem við erum að fjalla um. Tökum það líka með að aðalrökstuðningur stjórnarliða var að nú þegar lægju gríðarlegir fjármunir inni á þessum reikningum. Það var gert ráð fyrir að í sumar mætti greiða um 26% inn á þessa reikninga en nú er ekki gert ráð fyrir að neitt endurheimtist fyrr en árið 2011 vegna mála sem eiga eftir að fara fyrir dómstóla sem þýðir að inngreiðslur á reikningana munu koma mun seinna sem þýðir að vaxtakostnaður okkar verður mun meiri en áætlað var. Þegar menn tala um að þessar eignir beri einhvern ávöxt er það ekki mikill ávöxtur í samanburði við þá vexti sem við þurfum að greiða af þessum skuldbindingum sem eru 5,55% en almennir vextir í Evrópu eru um þessar mundir 0–1%. Það verður gríðarlegur vaxtamunur sem við munum þurfa að bera vegna þessarar seinkunar sem gerir málið enn verra en það var fyrir.

Það kemur líka fram í þessari greiningu að ef nafngengi krónunnar veikist að meðaltali um 6% á ári frá 1. janúar 2009 til 1. janúar 2016 muni eftirstöðvar skulda vegna Icesave standa í 707 milljörðum kr. Ef gengi krónunnar styrkist hins vegar um 5% á ári mun skuldin standa í 171 milljarði kr. Þetta sýnir okkur hvers lags gríðarlega áhættu Alþingi Íslendinga er að taka fyrir hönd íslensks almennings með því að samþykkja þetta frumvarp eins og það er óbreytt.

Ég er alveg viss um að sagnfræðingar framtíðarinnar munu rýna mjög vandlega í þær ræður sem þingmenn hafa flutt við 3. umr. um þetta mál. Við höfum þó náð því fram í minni hlutanum á þingi að sýna fram á þá gríðarlegu óvissu sem er um framtíðarhorfur er snerta þennan samning. Við náðum þó þeim gögnum þannig að við getum tekið upplýsta ákvörðun þegar við greiðum atkvæði um þessa Icesave-samninga.

Ég vil enda þessa ræðu mína á því að segja … (Fjmrh.: Er þetta ræða?) Er þetta ræða? spyr hæstv. fjármálaráðherra. Ég er ekki viss um að hann hafi hlustað vel á það sem ég hef sagt hingað til. Það er með miklum trega, hæstv. fjármálaráðherra, sem ég fer úr þessari pontu og mér þykir miður að við skulum vera að lenda þessu máli í þeim farvegi sem það er í núna vegna þess að allt frá upphafi hefur verið eins óhönduglega vandað til verka og hugsast getur.

Að sjálfsögðu átti ríkisstjórnin með hæstv. fjármálaráðherra að leita til stjórnarandstöðunnar um samstarf og samráð þegar kemur að þessu eina stærsta hagsmunamáli sem við höfum staðið frammi fyrir fyrir hönd þjóðarinnar. Vinnubrögðin frá upphafi hafa verið þau að algjört samráðsleysi hefur verið haft við okkur í stjórnarandstöðunni þegar komið hefur verið að samningagerð gagnvart Hollendingum og Bretum. Hafi einhvern tíma verið þörf á því, herra forseti, að Íslendingar stæðu saman í jafnviðamiklu máli og hér um ræðir er það nú. Því miður hefur ríkisstjórnin sýnt það í þessu máli eins og svo mörgum öðrum að hún er ekki ríkisstjórn samráðs eða samvinnu. Slíkt er miður á þeim tímum þegar við þurfum á slíkum gildum að halda. Ekkert bendir til þess að ríkisstjórnin ætli að viðhafa ný vinnubrögð. Ég mun því þegar kemur til þess að greiða atkvæði um það frumvarp sem meiri hlutinn hefur lagt hér fram segja nei við þeim samningum. Ég tel að við hefðum getað náð miklu betri árangri ef við hefðum staðið saman sem ein heild, en vinnubrögðin allt frá upphafi til enda eru sorgleg og bera vott um að hér eru við völd stjórnmálaflokkar sem hafa verið allt of lengi í stjórnarandstöðu og hafa virkilega gaman af því núna að fara með völdin á þeim tímum sem við þurfum og hefðum þurft að standa saman sem einn maður.