138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það lá fyrir hér fyrir jólin þar sem ég sat á fundum með hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni að það væri ætlan meiri hlutans í þinginu að taka málið út fyrir jól. Það var ákvörðun sem tekin hafði verið. (Gripið fram í.) Við sögðum þar að við stæðum ekki að slíku, við værum ósátt við þá málsmeðferð (Gripið fram í.) og menn voru sammála, stjórn og stjórnarandstaða, um að það væri ágreiningur um að taka málið út fyrir jól. Það er því undirritað samkomulag að meiri hlutinn hafi ætlað sér að gera það. Hv. þingmaður getur ekki komið og sagt að við framsóknarmenn höfum verið sáttir við að málið hafi verið tekið út fyrir jól — enda sagði hv. þingmaður það ekki en að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi staðið að slíku. Á þeim fundum sem ég sat töluðu sjálfstæðismenn líka um að það þyrfti að fá öll gögn áður en menn tækju málið út en meiri hlutinn ákvað að gera það engu að síður.

Síðan er hjákátlegt, frú forseti, að heyra hv. þm. Björn Val Gíslason reyna að sannfæra þá sem hlusta á þessa umræðu um að ríkisstjórnin hafi ætlað sér að hafa samráð um þessi mál. Meira að segja minnihlutastjórnin sem Framsóknarflokkurinn varði á sínum tíma vantrausti á Alþingi sniðgekk Framsóknarflokkinn gersamlega í þessu máli. Ég minnist þess þegar hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði hæstv. fjármálaráðherra á miðvikudegi hvort eitthvað væri að frétta af þessum viðræðum, hvort verið væri að semja um Icesave-samkomulagið, þá kvað hann svo ekki vera en síðan voru samningsdrögin kynnt á föstudegi. Það er alveg ljóst að frá upphafi hefur verið leynd og pukur yfir öllu þessu starfi og það er störfum Alþingis til minnkunar að mínu mati.