138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af því hvernig stjórnarandstöðu við höfum spilað. Við höfum ekki verið að spila stjórnarandstöðu hv. þingmanna Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur. Í haust þegar allt hrundi kom þáverandi stjórnarandstaða undir forustu Vinstri grænna og bar fram vantraust á ríkisstjórnina þegar hér var allt í ljósum logum. Við spilum ekki þannig. Við höfum bara verið að hugsa um hagsmuni Íslands og það munum við gera áfram.

Það er alveg rétt að það hefur verið annar tónn núna. Að vísu var alveg sami tónn í sumar, það þurfti mikið til að koma stjórnarliðum til að vinna með okkur í þessu. Stjórnarliðar blésu síðan á þetta allt saman, hentu út öllum fyrirvörunum, lyppuðust niður gagnvart útlendingunum. (Gripið fram í: Ekki öllum fyrirvörunum.) Virðulegi forseti. Allir aðalfyrirvararnir eru farnir, 2024 út, efnahagslegi fyrirvarinn varðandi hagvöxtinn. Og þá segir hæstv. fjármálaráðherra alltaf: Ja, hann er inni nema vextirnir. Vextirnir eru stóra málið. Vextir á ári eru jafnmiklir og rekstrarkostnaður Landspítalans, 30 milljarðar. (Gripið fram í.) Fyrirgefðu, 45 er kallað hér fram í. Ég gerði of lítið úr þessu, ég var að hjálpa ríkisstjórninni enn og aftur.

Auðvitað erum við ekki ein við samningaborðið. Þess vegna hefði verið svo mikilvægt að við hefðum staðið saman, að við værum ekki að rífast hér inni, að við stæðum saman eins og við gerðum í þorskastríðunum, eins og við höfum gert í sjálfstæðisbaráttunni. Við stóðum saman gagnvart ógninni að utan. En ríkisstjórnin hefur farið þá leið að etja mönnum saman, fara í einhverja spunaleiki og aldrei farið rétt með, það hefur þurft að toga allar upplýsingar upp, og núna erum við enn að bíða eftir upplýsingum. En menn ætla að klára þetta á morgun, alveg sama hvað líður staðreyndum (Forseti hringir.) og stöðu mála. Það er það sem er alvarlegt. Við áttum að standa saman en (Forseti hringir.) ríkisstjórnin ber ábyrgð á því að svo var ekki gert, virðulegi forseti.