138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Fyrir það fyrsta stend ég við það sem ég sagði áðan. Menn verða svo bara að túlka það eins og þeir vilja. Ég held reyndar að þetta sé mjög skýrt og það þurfi ekki að túlka það sérstaklega ofan í þingmanninn.

Varðandi gengisáhættuna skal ég fallast á, hv. þingmaður, að ég hefði mátt orða það betur. Vandamálið er að gjaldeyrisáhættan, eins og kemur mjög skýrt fram í áliti IFS, varð mönnum ekki ljós fyrr en seint á haustmánuðum. Það er alveg rétt — ég er að segja að það hafa komið fram álit á undanförnum vikum, hv. þingmaður. (BVG: 18. desember.) 18. desember, kallar hv. þm. Björn Valur Gíslason fram í, það er varla vika síðan við fengum gögn um gengisáhættuna í málinu. Það eru ekki vikur eða mánuðir síðan. (BVG: 14. nóvember.) Við erum að tala um hagsmuni upp á tugi milljarða. Svo spyrja menn sig af hverju við höfum staðið hér upp á endann og harðlega gagnrýnt þá málsmeðferð sem hefur verið viðhöfð í þessu máli. Gengisáhættan í málinu hefur kostað Íslendinga 53 milljarða á þessu ári. Hvað segir Seðlabankinn sem fékkst loksins í síðustu viku til þess að segja okkur sannleikann í málinu um að skuldastaðan væri yfir 320%? Jú, vandamálið er bara að það skiptir engu máli hvað við segjum, það skiptir engu máli hvaða gögn komu fram. Hv. þm. Björn Valur Gíslason ráðlagði fjárlaganefndarmönnum utan af sjó nú um mitt sumar að hætta þessu karpi.