138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég sé á mælendaskránni að hún er að styttast og tíminn styttist um leið þar til við förum að greiða atkvæði í atkvæðagreiðslu sem hefur verið boðuð á morgun í kringum hádegi. Eftir situr samt sú spurning sem ekki hefur enn þá verið svarað og tengist þeim gögnum sem fjárlaganefnd og m.a. hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur beðið hæstv. fjármálaráðherra að afla, gögnum sem lögmannsstofan Mishcon de Reya á greinilega að hafa sett fram og lagt fyrir ríkisstjórnina. Ég vil gjarnan fá að vita hvar þetta mál er statt, hvort fjárlaganefnd hafi verið boðuð á fund vegna þessara gagna. Ég tel mikilvægt að áður en þessari umræðu er lokið og dagskrá hefur verið tæmd fáum við og okkar fólk í fjárlaganefnd að vita stöðu þessa máls, að við fáum að vita hvort fjármálaráðherra hafi skilað því í tíma og hvernig sú staða er. (Forseti hringir.) Mér þætti gott að fá þær upplýsingar og væri þakklát því.