138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að ég hefði gert grein fyrir því og lesið upp dagsetningar á þessum nýju gögnum sem hv. þingmaður réttilega bendir á, þ.e. glærukynningunni frá 26. mars, það var bréf 11. mars og síðan þetta minnisblað frá Matthew Collings frá 25. mars. Þar til viðbótar nefndi ég hin gögnin og það virtist vera og bent er á í þessu bréfi að fleiri gögn gætu varpað ljósi á málið. Þar var ég að vitna til fyrri bréfanna, þannig að við séum ekki að búa til ágreining um það sem ekki er ágreiningur um.

Þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson kemur aftur á móti með yfirlýsingar um að menn hafi ekki haldið uppi kröfum eða vörnum í málinu verður það auðvitað að standa sem hans fullyrðing. Ég vísa til þess sem ég vitnaði líka í, að fleiri tuga blaðsíðna löng skýring fylgdi samningunum frá því í júnímánuði. Þar er mjög ítarlega farið yfir hvernig á málum var haldið varðandi þessi atriði og það er rétt að menn lesi það. Þar stendur skýrum stöfum að menn hafi beitt fyrir sig þessu með hryðjuverkalögin og því með hvaða hætti Bretar fóru fram í Bretlandi og gert það með mjög skilmerkilegum hætti. Það stendur í þessari greinargerð með málinu í upphafi og það er alla vega ekkert nýtt þó að við sjáum þau gögn sem þar eru á bak við.

Ég harma að þessi gögn hafi ekki verið birt en ef fyrstu viðbrögð sem við fáum eru rétt, að þarna hafi verið um að ræða glærukynningu sem hafi ekki verið afhent heldur aðeins verið kynning stofunnar, þá er auðvitað mjög gott að fá það fram núna. Við fengum heila möppu sem, eins og ég sagði, var frá Mishcon de Reya þar sem sagt er að þar séu öll gögnin sem þeir hafi haft upphaflega. Þessi gögn eru ekki þar og auðvitað ber að harma ef menn hafa ekki fengið allar upplýsingar um málið. Hvort það breytir málinu að öðru leyti verða menn síðan að meta þegar þeir sjá þessar upplýsingar í heild sinni. Það sem ég var að benda á og það nýjasta sem ég fékk fyrir nokkrum mínútum eru (Forseti hringir.) Lovell-skjöl og ýmislegt annað sem tengist ekki Icesave-málinu á þessu stigi.