138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:27]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka formanni fjárlaganefndar fyrir framgöngu hans við það að afla þeirra upplýsinga sem óskað var eftir þó að ég viðurkenni fúslega að betra hefði verið að fá þær fyrir upphaf þessarar umræðu eins og óskað var eftir á fundi fjárlaganefndar 22. desember. Það hefði gert alla umræðu um þetta betri að mínu mati. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns hér áðan voru þessi gögn að berast okkur fyrir þremur tímum og við höfum í sjálfu sér ekki haft nokkurn einasta tíma til að rýna þetta af einhverri yfirvegun eða gaumgæfa innihald þess með ábyrgum hætti.

Ástæðan fyrir því að þessi beiðni var sett fram af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd var einfaldlega sú að um þessi skjöl er getið í áliti Mishcon de Reya, á bls. 7 undir 13. tölul., og þegar farið var að bera saman gögn málsins og þetta kom í ljós að fjárlaganefnd, og þar með Alþingi, hafði ekki fengið aðgang að þeim upplýsingum sem tilgreint var að hefðu verið lagðar fram á fundi samninganefndar Íslands og lögfræðistofunnar um Icesave-samningana sem haldinn var 26. mars.

Það ríkir ákveðin tortryggni í þessu máli, við skulum bara viðurkenna það. Hún er í sjálfu sér ekki ástæðulaus ef við minnumst þess hvernig málið kemur fyrst inn til þingsins frá núverandi ríkisstjórn, eða fyrrverandi raunar, þeirri sem tók við 1. febrúar. Þann 3. júní kom fyrirspurn úr ræðustól Alþingis til hæstv. fjármálaráðherra um það hver staða mála gagnvart Icesave-samningunum væri. Hæstv. ráðherra upplýsti þá að ekki væri neitt sérstakt í gangi og að allir yrðu upplýstir um það með hvaða hætti staðið yrði að þeim málum. Engu að síður voru samningarnir undirritaðir og frágengnir 5. júní. Þegar maður fer að rýna í allan þennan skjalabunka sem liggur fyrir er ekkert undarlegt þó að þingmenn, sem eru að reyna að halda utan um öll þessi gögn, muni ekki allt sem kemur upp þarna. Þegar ofan á það bætist síðan vinna fjárlaganefndar við fjárlög næsta árs nú síðla hausts er óhjákvæmilegt að upplýsingar skolist til í höfði manna og fólk muni einfaldlega ekki allt sem það hefur lagst yfir undangengna mánuði.

Ég rakst á það í gögnum málsins í dag, þegar ég var að skoða þetta, að 15. maí kemur fram í bréfi frá bresku samninganefndinni til íslensku samninganefndarinnar að fyrirhugaður er fundur á Íslandi 3.–4. júní til að ljúka málinu. Þannig að þær upplýsingar lágu fyrir á þeim tíma hjá íslensku samninganefndinni. Þessi aðdragandi endurspeglar þá stöðuna sem uppi er, að það er vantraust á milli alþingismanna við það verk að reyna að gæta hagsmuna þjóðarinnar og það er óásættanlegt. Sem betur fer náði Alþingi ágætlega saman í sumar og ég batt við það vonir og vænti þess að það væri forsmekkurinn að því hvernig við mundum ljúka þessu máli. Það er okkur öllum að kenna, þingmönnum, með hvaða hætti við virðumst vera að skilja við þetta mál nú en að sjálfsögðu er ábyrgðin þeirra sem ráða för hverju sinni. Það er meirihlutastjórnin sem ber höfuðábyrgðina á því hvernig verklagið er. Það er enginn bragur á því að ljúka þessu máli og ganga frá því með þeim hætti að það er kannski þriggja þingmanna munur við lok þess. Í mínum huga er ekki nokkur bragur á því að afgreiða mál af þessari stærðargráðu með þeim hætti. Það stefndi allt í það í haust eftir vinnu sumarsins að við gætum lokið þessu með sómasamlegum hætti.

Hvers vegna skyldum við hafa kallað eftir þessum upplýsingum svo að ég bæti nú örlítið inn í það? Það skyldi þó ekki vera að það stafaði m.a. af því hvert verklag og verkefni samninganefndarinnar átti að vera? Það átti fyrst og fremst að vera það að semja um greiðsluskilmála og afborganir og þar af leiðandi dreg ég fyrst og fremst ályktun af því hvernig hún var sett til verka að hún gaf ekki ýkja mikinn gaum að öðrum atriðum þessara samninga, taldi sig ekki þurfa að sinna því. Þetta væri tiltölulega einfalt verk sem ætti að ljúka fljótt og vel og menn vildu ekki — og sumir sögðu nenntu ekki — að hafa málið lengi hangandi yfir sér því að þetta væri tiltölulega einfalt verk. En eftir því sem við höfum rýnt gögn málsins betur hefur einfaldlega komið í ljós að þetta er margflókið verk og mjög slungið og hefði að öllu óbreyttu krafist miklu vandaðri vinnubragða og meiri vinnu. Með þessum orðum er ég ekki að leggja dóm á verk nokkurs manns heldur einfaldlega fella dóm um það hvernig við hefðum getað staðið betur að málinu.

Í því áliti sem þessi lögfræðistofa, Mishcon de Reya, leggur fram og barst fjárlaganefnd 19. desember — ég vek athygli á þessari dagsetningu, 19. desember, á lokadögum fjárlagagerðar, jafnhliða því sem verið var að vinna í því að gjörbylta skattkerfi þjóðarinnar, barst okkur 86 síðna sérfræðiálit breskrar lögfræðistofu og það er fyrst í dag, 29. desember, sem okkur svona þokkalega skröltfærum í enskunni, en ekki meira en það, barst í hendur gróf þýðing á því áliti. Það er ekkert undarlegt þó að menn kalli eftir að fá aðeins rýmri tíma til að kynna sér slík gögn. Við skulum bara hafa fullan skilning á því.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í þessu viðbótargagni sem kallað var eftir, og ekki síður í ljósi þess bréfs sem fylgir þeim gögnum sem hér koma fram, er ekkert óeðlilegt að spurt sé hvernig menn hafi staðið vörð um hagsmuni þjóðarinnar í þessu máli. Gefur þetta ekki tilefni til þess að gaumgæfa betur marga þætti í þessum efnum, ekki síst þegar haft er í huga, sem kom fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar hér áðan, að það koma sennilega á milli 50 og 60 skjöl frá þessari sömu lögfræðistofu. Ég geri ráð fyrir því að einhver hluti þeirra — ég veit ekki hvað í þessu stendur — sé nú þegar fyrir hendi í gögnum málsins. Þessi skjöl eru af ýmsum toga, ýmsar upplýsingar sem þar koma fram, og það getur verið fróðlegt, gagnlegt vonandi, fyrir þingið að skoða þau efni sem þar eru reifuð. Og full ástæða til.

Í erindinu frá Mishcon de Reya eru mjög alvarlegar ásakanir á ferð. Ég ætla ekki að tala fyrir hönd þeirra, ég ætla einungis að rekja þær staðhæfingar sem koma fram í þessu bréfi. Það er þeirra að standa fyrir þeim og jafnframt hinna sem þeir eru að vega að ef menn kjósa að túlka þau orð með þeim hætti að svo sé gert. Þó ekki væri nema fyrir þennan árekstur eða þessa mismunandi nálgun væri full ástæða fyrir fjárlaganefnd að kalla þessa aðila, bæði lögmennina hjá Mishcon de Reya og ekki síður formann íslensku samninganefndarinnar, til viðræðu um það sem þarna ber á milli.

Það er alveg ljóst, miðað við það sem hér er sett fram, að Icesave-samninganefndin fékk þessa kynningu 26. mars sl. Í þeirri kynningu er nefnd sérstök málshöfðunarleið gagnvart breska fjármálaráðuneytinu sem ekkert hefur verið fjallað um fyrr í því áliti sem þeir gáfu. Og að þeirra mati, lögspekinganna bresku — og ég vil undirstrika það við þessa umræðu, í ljósi ýmissa orða sem um þessa lögfræðistofu hafa fallið, að þetta er mjög virt stofa á sínu sviði í Englandi, það er rangt að halda öðru fram. Þeir fullyrða að þessar upplýsingar gætu hafa gagnast íslensku þjóðinni í þeirri samningagerð sem fyrir höndum var og láta í veðri vaka að þessum málum hafi ekki verið beitt í samningsgerðinni. Við fáum örugglega fullyrðingar um annað hér í þessari umræðu. Það var hins vegar ákvörðun Svavars Gestssonar, fyrrverandi formanns samninganefndarinnar, að taka þessa umfjöllun um málaferlin gagnvart breska fjármálaeftirlitinu út úr síðari kynningunni sem ætluð var hæstv. utanríkisráðherra til undirbúnings fyrir fund hans með breska starfsbróður sínum, Miliband.

Menn taka töluvert upp í sig í þessum efnum og ég fullyrði að full ástæða er til að fara í gegnum þessar fullyrðingar, ekki síst þegar haft er í huga að við samningsgerðina sjálfa eru mál frágengin með þeim hætti að Íslendingar afsala sér öllum bótakröfurétti á hendur Bretum vegna þeirra málsatvika sem orðið hafa. Það olli töluverðri umræðu á frumstigum þessa máls og er mjög ítarlega farið yfir það í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar frá því í ágúst, vænti ég, og í mínum huga gefur þessi yfirlýsing tvímælalaust tilefni til að fara yfir þann þátt þeirra samninga sem hér liggur fyrir. Það kemur raunar líka fram í gögnum málsins að þeir hafa mjög mörg skjöl undir höndum sem tengjast þessu. Ég nefndi hér áðan töluna 50–60 og ég teldi það ábyrgðarleysi að fara ekki í gegnum það áður en málið er endanlega afgreitt.

Til viðbótar má geta þess að í áliti Mishcon de Reya kemur fram að þeir telja, eins og raunar hefur komið fram í umræðunni, samningana og frumvarpið að mörgu leyti gallað og að mörgu leyti óljóst. Þar hefur verið nefnt sérstaklega ákvæðið kennt við Ragnar Hall, hvort það hafi nokkurt vægi gagnvart Bretum til að lækka lánsfjárhæðina. Þeir telja litla sem enga möguleika á því að þrýsta á endurupptöku samninganna ef á það reynir á síðari stigum málsins að innstæðutryggingarkerfi Evrópu hafi verið gallað eins og raunar hefur verið fullyrt. Mýmörg önnur álitamál mætti nefna í þessum efnum. Ég ætla ekki að lengja umræðuna eða þreyta ykkur með því.

Ég legg hins vegar höfuðáherslu á það að í ljósi þeirra viðbragða sem komið hafa við þessari tiltölulega einföldu ósk, á fundi fjárlaganefndar 22. desember, tel ég eðlilegt að draga þá ályktun að fullur grunnur sé undir þeirri ályktun, sem undirstrikuð hefur verið í nefndaráliti minnihlutafulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, að frekari upplýsingar skorti í þessum efnum til að taka sem upplýstasta ákvörðun í þessu máli. Aðrir hafa önnur sjónarmið og ég skal virða þau en ég er ekki sammála þeim.

Ekki síst í ljósi þess hvernig málið hefur unnist á síðustu viku í miklum önnum Alþingis tel ég fulla ástæðu til að ætla að þetta styrki enn frekar þær athugasemdir sem komið hafa fram um það að þetta sé einfaldlega unnið á allt of miklum hraða og undir allt of miklu álagi til þess að forsvaranlegt sé að afgreiða málið með þeim hætti sem til stendur.