138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sem miðað við stöðu málsins var hófstillt. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er mjög óheppilegt að gögn skuli koma fram svo seint í umfjöllun málsins sem raun ber vitni. Ég skil vel að þingmenn stjórnarandstöðunnar telji sig hafa ástæðu til að skoða þau ákaflega vel. Eins og komið hefur fram hér í kvöld hef ég ekki haft þessi gögn undir höndum fyrr en nú að ég kom hér í hús þegar klukkuna vantaði korter í 10. Ég hef þó hlaupið í gegnum það bréf sem barst frá Mishcon de Reya í kvöld og einnig kynningargögnin sem, eins og segir í bréfinu, ég hefði átt að fá að sjá. Í þeim gögnum skiptir 4. kaflinn meginmáli en þar er fjallað um þá möguleika sem íslensk stjórnvöld kynnu þá að hafa haft til málsóknar gegn Bretum vegna setningar hryðjuverkalaganna og sömuleiðis vegna aðgerðanna — fyrst og fremst vegna setningar hryðjuverkalaganna.

Sá partur þessara gagna lýtur að möguleikum Íslendinga til að reisa mál á hendur Bretum fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þetta er möguleiki sem var skoðaður grandgæfilega af fyrri ríkisstjórn. Og ég vísa sérstaklega til fréttatilkynningar sem þáverandi ríkisstjórn gaf út 6. janúar þar sem það kemur algjörlega skýrt fram að íslenska ríkisstjórnin vildi kanna þann möguleika til þrautar. Það verður líka að koma fram að sú ríkisstjórn naut ráðgjafar fyrirtækis sem hér hefur verið nefnt, Lovells, og það taldi ákaflega litlar líkur á að það væri hægt. Eigi að síður var sú ákvörðun tekin (Forseti hringir.) af fyrri ríkisstjórn og hún hefur í reynd ekki verið tekin til baka.