138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér hálfgert áfall að heyra og sjá það viðurkennt að enn eru til gögn og enn eru að koma fram gögn í málinu sem mögulega geta skipt máli og varða niðurstöðuna sem hér mun fást. Það hefur komið fram, herra forseti, að fleiri gögn séu á leiðinni. Það kom m.a. fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra, ef ég skildi hann rétt, að lögmannsstofan sem hér er vitnað í sé að segja ósatt í bréfi sínu um þá kynningu sem hann er sagður hafa fengið.

Ég vil, hæstv. forseti, beina því til hæstv. forseta að hann hlutist til um að funda með formönnum flokkanna og þeirra sem sitja á þingi til þess að reyna að sjá fyrir endann eða sjá hvernig á að fara með málið áfram því að það er algjörlega ábyrgðarlaust að halda umræðunni áfram (Forseti hringir.) vitandi það að gögn eru að koma og jafnvel fleira.