138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil nú af ástæðu vekja athygli á því að hér kom hæstv. utanríkisráðherra og ræddi þetta mikilvæga mál, ræddi gögn sem eru nýkomin í hús. Hann lagði út frá því með þeim hætti að hann hefði hlaupið á þessu því að hann hefði haft þrjá tíma til að (Gripið fram í: Nei, nei, þrjú korter.) undirbúa sig — þrjú korter, fyrirgefið þið, virðulegi forseti. Bara það og sú staðreynd að ný gögn eru á leiðinni segir okkur öllum að við þurfum aðeins að staldra við og fara betur yfir málið. Sú áætlun sem var uppi um að afgreiða það mál sem ég held að allir hv. þingmenn séu sammála um að sé stærsta mál sem við munum væntanleg afgreiða í lífstíð okkar, eftir nokkra klukkutíma, gengur ekki upp. (Forseti hringir.) Ég hvet virðulegan forseta til að fara yfir þetta með formönnum flokkanna hvernig við (Forseti hringir.) högum þessu máli þannig að sómi verði að.