138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þar sem hæstv. forseti hefur ekki tekið ákvörðun um að fresta þessum fundi þá vil ég bara ítreka þá skoðun mína og í rauninni þá kröfu mína að mér verði ekki gert að sitja undir því, að starfsskilyrðin í þinginu séu þannig að ég haldi síðustu ræðu mína í þessu máli undir þeim formerkjum að ég sé ekki upplýst um öll gögn málsins. Ég hef ekki áhuga á því, frú forseti, að standa hér og tala mig bláa í framan um fundarstjórn forseta og kvarta yfir þessu, ég hef ekki áhuga á því að eyða síðustu ræðu minni, fimm síðustu mínútunum mínum um þetta mál, í að tala um hvaða ofbeldi ég sé hugsanlega beitt hér af ríkisstjórnarflokkunum, ég hef ekki áhuga á því. Ég hef áhuga á því að tala efnislega um málið en til þess að svo sé verður mér að vera það kleift og ekki með því að mér sé sagt að einhver gögn séu ekki merkileg. Ég verð að fá að kynna mér þau sjálf. Ég geri kröfu til þess, frú forseti, að þessum fundi verði frestað þar til við hv. þingmenn, allir sem einn, (Forseti hringir.) höfum fengið færi á því að kynna okkur gögn málsins.