138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil í allri minni einlægustu vinsemd biðja frú forseta um að taka til greina þá eðlilegu ósk okkar stjórnarandstöðuþingmanna um að þessum fundi sé frestað. Hér erum við í 3. umr., ég held að flest okkar eigi einungis fimm mínútna ræðu eftir og síðan er umræðunni lokið. Hér eru að berast ný gögn. Formenn flokkanna eru að funda og á fundinum verða kannski teknar ákvarðanir varðandi skipulag þessarar umræðu og ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað að ég ætla ekki að vera búin að tæma minn litla skammtaða ræðutíma þegar þetta skýrist. Það verður, frú forseti, að gera þá eðlilegu kröfu til frú forseta að hún taki þessa ósk, raunar þessa kröfu, til greina og svari okkur nú, þannig að við þurfum ekki að standa hér og tala okkur hás um fundarstjórn forseta. (Forseti hringir.) En það munum við gera vegna þess að á meðan við gerum það gengur ekki á ræðutíma okkar.