138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í desember gekk minni hlutinn hér á þingi frá samkomulagi við meiri hlutann um það hvernig farið yrði með afgreiðslu á þessu Icesave-máli. Það gerðu menn í góðri trú um að öll gögn lægju fyrir í málinu og við höfðum einsett okkur að klára þessa vinnu milli jóla og nýárs. Um það var samkomulag sem minni hlutinn hefur að öllu leyti staðið við.

Við upplifum nú að ný gögn eru að berast í málinu og embættismenn og hæstv. ráðherrar eru bornir þungum sökum. Þetta er eitthvað sem hlýtur að þurfa að leiða til lykta, virðulegi forseti, við getum ekki haldið þessari málsmeðferð áfram miðað við þær upplýsingar sem hafa verið að koma hér fram.

Það skal líka ítrekað sem hefur komið fram að þingstörf eru í algjörri upplausn og það sjáum við á því að hér eru að streyma í hús þingmenn og ráðherrar sem ekkert hafa verið við þessa umræðu áður og það er upplausn á stjórnarheimilinu. Virðulegi forseti. Það er enginn sómi að því að halda þingstörfum áfram við þessar aðstæður og ég skora á hæstv. forseta að fresta nú þessari (Forseti hringir.) vinnu hér og bíða niðurstöðu þess fundar sem formennirnir halda.