138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Hér er algjör forsendubrestur. Það er forsendubrestur varðandi þetta mál í ljósi þess að komið er bréf sem upplýsir að til eru gögn sem við höfum ekki séð, það er forsendubrestur vegna þess að þau gögn munu væntanlega leiða til þess eða geta haft áhrif á það hvaða skoðanir menn hafa á þessu máli og það er líka, frú forseti, vegna þess að það samkomulag sem var gert er væntanlega úti.

Síðast en ekki síst, frú forseti, eru hér fjölmargir þingmenn sem eru væntanlega að fara að halda sína síðustu ræðu í þessu máli og það er hreinn dónaskapur að ætla þeim þingmönnum að klára ræðutíma sinn hér án þess að þeir hafi fengið að fara yfir þau gögn sem nauðsynleg eru í málinu, frú forseti. Það er ekki hægt að bjóða þinginu upp á þetta, þetta er mál sem er þess eðlis að við getum ekki haldið svona áfram.