138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Í gærkvöldi ræddum við nýjar upplýsingar á Alþingi sem komið höfðu fram hjá Mishcon de Reya, lögfræðistofunni í Bretlandi sem hafði verið beðin um að fara í gegnum það sem stofan hefði í fórum sínum um Icesave-málið og senda þau gögn sem hún hefði um það. Ég fór yfir það þá að komið hefði ósk um gögn á fundi 22. desember vegna tilvitnana í lögfræðiálit Mishcon de Reya og hafði verið bent á ákveðin skjöl með ákveðnum dagsetningum. Við hófum síðan leit að þessum gögnum og óskuðum eftir því að fá upplýsingar um þau. Þessi skjöl fundust ekki og var þá óskað eftir því formlega og jafnframt fyrir tilstilli ráðuneyta að Mishcon de Reya mundi senda okkur öll gögn um málið og það sem að gagni mætti koma.

Síðan áttu sér stað tölvusamskipti. Við fengum tölvupóst klukkan 16.25 þar sem loksins var staðfest að Mishcon de Reya væri að safna saman gögnum til að senda á okkur og sögðust þeir þá taka þau gögn „which seem relevant“, eins og þeir orðuðu það, og eru ekki í þeim gögnum eða möppum sem birt hafa verið á netinu.

Síðan kom aftur póstur klukkan 18.06 í gær sem ég fór yfir þar sem bent var á þrjú skjöl. Þessi gögn voru frá Michael Collins lögfræðingi og þar var líka glærukynning sem var vegna undirbúnings fundar utanríkisráðherra með Miliband 31. desember. Þetta var skjal frá 26. mars. Síðan kom plagg þar sem fjallað var um „the third way“, um aðferðafræðina í sambandi við hvernig eignir eru nýttar úr búi. Eins höfðu verið umræður í þessum skjölum um það hvernig hugsanlega mætti nýta sér hryðjuverkalögin eða aðförina að Heritable banka varðandi málið. Ég ætla ekkert að fara sérstaklega yfir þessi gögn en vildi vekja athygli á að þau bárust okkur.

Síðan klukkan 21.12, einmitt þegar ég var í ræðustóli í gærkvöldi, komu lokaskjölin, 25 skjöl, og stendur að þau séu fylgiskjöl „remaining 25 enclosures“, þ.e. lokaskjölin í málinu. Menn sögðu að þeir vildu fá tækifæri til að skoða þau og var sátt um að fjárlaganefnd mundi hittast í nótt í stuttan tíma til þess að reyna að átta sig á því hvað yrði gert með málið. Var síðan ákveðið að funda aftur klukkan átta í morgun þar sem farið var yfir málið að nýju.

Það var augljóst að menn töldu að í því bréfi sem fylgdi með, sem ég minntist ekki á, sem er frá Mishcon de Reya og er upp á þrjár blaðsíður, hefði verið ýjað að því að einhver fleiri gögn væru í málinu, þ.e. tölvupóstar. Það varð niðurstaðan í dag að hringt yrði til Mishcon de Reya og reynt að kalla eftir því hvað þeir ættu við með því.

Það verður að segjast nákvæmlega eins og er að þetta hefur verið afar dapurlegur framgangsmáti vegna þess að þá kom í ljós að þrátt fyrir að menn væru að ýja að þessu í þessum gögnum hafði stofan ekkert sérstakt í huga. Þegar við kölluðum eftir þessu voru þeir tilbúnir að setjast við tölvuna og leita að skjölum fyrir Alþingi Íslendinga. Þegar þau voru komin og við fórum að fá einn og einn tölvupóst eftir að við vorum búin að bíða eftir því í klukkutíma af því að það var ekki hægt að ná tölvusambandi, sagði ég stopp. Ég tek ekki þátt í þessum leik. Það er búið að vinna 86 blaðsíðna plagg þar sem kallað er eftir því að lögfræðistofan skili áliti um málið í heild, fari yfir það, dragi fram þau atriði sem þeim finnast skipta máli. Stofan sendi okkur öll þessi gögn. Það kemur í ljós að af þessum 25 gögnum er ekki eitt einasta frá Mishcon de Reya. Obbinn af þeim er úr breska þinginu sem við höfum öll séð áður, hitt er frá Lovells lögfræðistofunni sem vann álit í sambandi við hryðjuverkalögin og skilaði áliti fyrir sl. áramót og þau gögn lágu frammi í byrjun janúar.

Síðan heyrum við þetta: Ja, fyrst þið óskið eftir því skulum við gá að því hvort það er fleira í málinu. Þá sagði ég stopp. Framgangsmátinn á þessu máli er með þvílíkum ólíkindum, svo ég noti orð sumra hér í þinginu, að mér var gjörsamlega ofboðið. Ég lauk þessari vinnu í fjárlaganefnd og óskaði eftir að þetta yrði tekið inn í þingið og menn ræddu þetta. Ég mun birta þann lista sem fylgdi þessum 25 gögnum. Þau eru trúnaðargögn vegna þess að þetta eru þriðja aðila gögn sem kallað var eftir, þ.e. lögfræðistofan sendi Alþingi Íslendinga gögn frá öðrum aðilum. Þar að auki er núna farið að tína til okkar einn og einn tölvupóst um samþykktir formanns samninganefndar (Forseti hringir.) við Mishcon de Reya og það er aðallega að ósk Alþingis, að okkar frumkvæði sem þeir vinna þessa vinnu úti í Bretlandi. Það er gjörsamlega búið að snúa hlutunum á haus í þessu máli og ég held (Forseti hringir.) að þetta sé bara enn eitt dæmi um að það er kominn tími til að við förum að ljúka þessu máli vegna þess að við erum farin að fjalla um sömu atriðin aftur. Samninganefndin gerði ítarlega grein fyrir þessu máli fyrir fjárlaganefnd á sínum tíma og það hefur ekkert komið nýtt fram, því miður, (Forseti hringir.) þannig að við getum alveg þess vegna klárað þetta mál og við eigum að drífa í því í dag.