138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir því að fulltrúi lögmannsstofunnar sem skrifaði bréfið sem hv. þingmaður vitnar hér til, hafi sagst hafa gögn sem skiptu máli vegna þess að hún hafði slík gögn. Enda bárust, eins og ég nefndi, núna áðan tölvupóstar er varða samningsstöðu Íslands, mat þeirra á samningsstöðu Íslands, hvernig haldið hefði verið á málum varðandi þá samningsstöðu og hvað þyrfti að gera betur. Jafnframt var þar mat á því að það væri algjörlega vonlaust, ef ég man orðalagið rétt, að gera ráð fyrir því að Alþingi Íslendinga mundi fallast á samning sem fæli í sér að setja skuldaklafa á heila kynslóð Íslendinga.