138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var kallað eftir gögnum áður en málið var tekið út úr fjárlaganefnd. Sá bunki sem barst okkur hér í gærkvöldi lítur einhvern veginn svona út. Þetta eru reyndar ekki skjölin vegna þess að það er trúnaður á þeim en ég bar bunkana saman. Í þessum gögnum, þessum gagnabunka, eiga að finnast upplýsingar sem lögmannsstofan telur afar mikilvægt að farið sé yfir áður en tekin er ákvörðun um Icesave.

Í dag hafa okkur verið að berast tölvupóstar frá lögmannsstofunni og þetta er bara lítill hluti af því, ég held að það sé enn þá eitthvað að berast. Ég vil taka það fram að lögmaðurinn, þessi breski, var í fríi, hann var heima hjá sér og sagði að það væri honum afar erfitt að afla þessara upplýsinga með svo stuttum fyrirvara. Ég vil bara vekja athygli á þessu, það er algjörlega (Forseti hringir.) útilokað fyrir nokkurn mann að fara í gegnum svona þykkan bunka og ég (Forseti hringir.) held að það ætlist heldur enginn til þess.