138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég get tekið undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að auðvitað eru vonbrigði að við skulum ekki geta farið yfir þetta eða fengið öll gögn frá lögmannsstofunni eins og við hefðum viljað.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að þetta mál er til komið vegna þess að það kom 86 blaðsíðna álit frá lögmannsstofunni þar sem vísað er í gögn sem ekki finnast. Þegar kallað er eftir þeim gögnum finnast þau ekki í fjármálaráðuneytinu. Það var leitað til lögmannsstofunnar sem lagði gögnin fram og bent á að formaður samninganefndarinnar hafi ráðlagt þeim að undanskilja upplýsingar fyrir einhvern mikilvægasta fund sem utanríkisráðherrar Bretlands og Íslendinga hafa haldið.

Allt þetta eru upplýsingar sem við verðum að fara yfir. Ég held að það megi segja það með sanngirni að auðvitað hefðum við átt að gefa okkur meiri tíma. Það liggur ekkert á, það hefur ekkert legið á núna undanfarnar (Forseti hringir.) vikur, þá hefði verið miklu betri bragur á þessu máli.