138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir.

Mig langar einu sinni enn að lesa þau orð hv. formanns fjárlaganefndar sem féllu hér í fyrradag. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Varðandi það sem samþykkt var í haust var það eitt sem við klikkuðum illilega á, það var það þegar við settum það klára skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust. Við vissum þetta þó nóttina sem þetta gerðist, ég fékk tölvupósta frá málsmetandi mönnum sem sögðu: Nú fóruð þið yfir mörkin. Við ræddum það á þeim tíma, við tókum áhættuna, ég treysti á að við næðum þessu og talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað hefði ég átt annað að gera, átti ég að fara að segja að þeir mundu ekki halda? Ég talaði að sjálfsögðu fyrir því, því miður.“

Þetta sagði formaður fjárlaganefndar hér í þinginu í fyrradag. Þarna segir hann hreint út að hann vissi að Bretar og Hollendingar mundu ekki samþykkja þá fyrirvara sem þó voru komnir inn í frumvarpið að lögunum sem voru samþykkt 28. ágúst.

Mér finnst þetta grafalvarlegt mál og raunverulega upphafið að því máli sem við stöndum nú frammi fyrir og þurfum að ræða milli jóla og nýárs. Það var vitað um leið og Alþingi samþykkti þessi lög að Bretar og Hollendingar mundu segja: Nei, við föllumst ekki á þetta. Hvergi í nokkru einasta þjóðríki hefur það gerst að erlendar þjóðir geti haft áhrif á lagasetningu þjóðþings eins og við upplifum hér. Framkvæmdarvaldið gerði ekkert til þess að kynna þetta eins og þó var í greinargerð með lögunum, ekki neitt, því að þeir vissu að það hafði engan tilgang. Þeir fóru með skottið á milli lappanna og við sitjum uppi með þetta frumvarp þar sem okkur er skipað að breyta þessu og það er búið að draga allar tennur úr frumvarpinu, (Forseti hringir.) lögunum sem samþykkt voru í sumar.