138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þekki ekki út í hörgul streymið á milli eyrna hv. þingmanns en hitt veit ég af fenginni reynslu að það er töluvert á milli eyrna hv. þingmanns.

Nú skal ég upplýsa hv. þingmann um mat lögmannsins sjálfs á þessum gögnum sem nú streyma til hans. Hv. þingmaður hefur raunar sagt það hér að hann telji þetta góða lögmannsstofu og ég skal ekkert deila á það. Hann hefur bæði í ræðum hér fyrr og í ræðu sinni áðan lýst henni sem vandaðri lögmannsstofu. Ef hún er vönduð hlýtur hún að hafa farið í gegnum sín eigin gögn áður en hún skilaði 86 blaðsíðna skýrslu. Látum það liggja á milli hluta, frú forseti.

Þau gögn sem hv. þingmaður talar um að séu að berast, tölvugögn, þ.e. tölvupóstar, sem voru líka eitt þeirra fjögurra atriða voru nefnd í bréfinu. Hvað segir lögmaðurinn sjálfur um það? Í einu af þeim bréfum sem hv. þingmaður hefur fengið, undanfara þessara tölvupóstssendinga, segir hann: Við höfum ekki mikið af samskiptum í formi tölvupósta.

Hann segir líka: Ég man í skjótu bragði ekki eftir þessum tölvupóstum.

Hann segir jafnframt, og það er kannski það merkilegasta: Ég mundi ekki halda persónulega að tölvupóstarnir væru jafnmikilvægir og gögnin sem við sendum í gær.

Við erum búin að fara yfir þau gögn og það eru gögn sem liggja nánast að öllu leyti þegar fyrir. Af þessu tel ég að hægt sé að álykta að þau gögn sem eru að berast núna skipti ekki miklu máli fyrir þessa umræðu. Ef hv. þingmaður kemst að annarri niðurstöðu segir hann líka að það sé rangt hjá honum að lögmannsstofan hafi ástundað vönduð vinnubrögð í þessu máli. Ég tel að þetta sé vönduð lögmannsstofa og ég tel að hún hafi farið í gegnum sín eigin gögn. Þess vegna tel ég að það sé engin þörf á að bíða eftir því að menn geti farið í gegnum einhverja stutta tölvupósta (Forseti hringir.) þegar þeir segja það sjálfir að í þeim sé ekkert markvert.