138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er á mælendaskrá og ég á eftir að halda eina fimm mínútna ræðu í þessu stærsta máli Íslandssögunnar. Ég geri að sjálfsögðu kröfu til þess, frú forseti, að ég hafi, þegar ég held þá ræðu, náð að kynna mér gögn málsins.

Nú hefur það komið fram hér í dag að enn eru að berast upplýsingar að utan sem ég tel nauðsynlegt fyrir mig sem þingmann þjóðarinnar að ná að kynna mér. Ég tel að það sé hlutverk forseta að sjá til þess að mér og öllum öðrum þingmönnum sem sitja hér á Alþingi séu sköpuð þau starfsskilyrði að þeir geti tekið sem upplýstastar ákvarðanir og það sé ekki í verkahring hæstv. utanríkisráðherra að meta það fyrir mína hönd hvort þetta séu merkileg gögn eða ekki.

Í sumar ætlaðist ríkisstjórnin til þess að upphaflega Icesave-málið yrði samþykkt án þess að við fengjum að sjá sjálfa samningana. (Forseti hringir.) Þá var mér sagt að þeir væru svo frábærir að það væri óhætt að samþykkja (Forseti hringir.) þá óséða. Þingið féllst ekki á það og þess vegna verð ég að fá (Forseti hringir.) að sjá þessi gögn.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)