138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en tekið undir orð síðasta hv. þingmanns, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Öllum er ljóst hvað það er fráleitt að ætla að halda þessari umræðu áfram og ljúka henni áður en þingmenn hafa tækifæri til þess að kynna sér þau gögn sem fram koma í málinu. Það verður að vera í höndum þingmanna sjálfra að meta hvað þeir telja skipta máli og hvað ekki, það er ekki eitthvert yfirvald í þinginu sem segir okkur fyrir verkum, um hvað okkur finnst skipta máli og hvað ekki. Það hefur verið óskað eftir upplýsingum, (Forseti hringir.) þær berast nú. Það er fráleitt að halda þessari umræðu áfram og ljúka henni og það er fullkomið gerræði ef ríkisstjórnin ætlar sér að keyra málin fram með þeim hætti.