138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur haldið margar ágætar ræður um þetta mál. Það hefur komið mjög skýrt fram að ég og hann erum algjörlega ósammála. En hversu slæmt sem honum kann að þykja þetta mál er hin pólitíska ábyrgð að því er varðar framkvæmdarþáttinn algjörlega á herðum ríkisstjórnarinnar. Mér finnst það töluvert sárt þegar menn koma hingað og halda margar ræður með svigurmælum og köpuryrðum til embættismanna. Ég verð að segja að mér finnst að þingmenn verði að láta formann samninganefndarinnar njóta sannmælis. Mér finnst sem menn hafi talað hér með mjög ónærgætnum hætti um framkomu hans og háttsemi í málinu. Mér finnst þá að hv. þingmaður, sem ég veit að er sanngjarn, verði að láta alla hluti koma fram.

Hv. þingmaður hefur fengið, sem félagi í fjárlaganefnd, fullt af tölvupóstum frá lögmannsstofunni Mishcon de Reya og einn kom í dag. Ég hef hér í sæti mínu verið önnum kafinn við að lesa um það tiltekna atriði — ég ímynda mér að hv. þingmaður, sem talar af svo mikilli þekkingu, hafi líka lesið það — sem hv. þingmaður gerði að umræðuefni hérna, þ.e. að Svavar Gestsson hefði séð til þess að tiltekinn þáttur máls var ekki sýndur mér fyrir fund minn með Miliband. Mike Stubbs segir, með leyfi forseta, í lauslegri þýðingu minni:

„Ég er sammála út frá því sem ég skildi að þessi tiltekni þáttur virtist ekki varða fund utanríkisráðherra með David Miliband.“

Með öðrum orðum, formaður íslensku samninganefndarinnar og Michael Stubbs eru sammála um að þetta tiltekna atriði sem ekki var sett inn í gögnin varðaði ekki fundinn sem ég átti klukkustundu síðar með breska utanríkisráðherranum. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það finnst mér algjörlega nauðsynlegt að komi fram.