138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil ítreka þá beiðni mína að þessum fundi verði frestað meðan við hv. þingmenn náum að kynna okkur þau gögn sem hafa verið að streyma hingað í hús varðandi þetta mál. Á meðan á ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar stóð brá ég mér fram til að reyna að afla mér frekari gagna sem ég fann og er nú að reyna að komast til þess að lesa þau. Ég er á mælendaskrá síðar í dag og ég verð að fá tíma til þess að kynna mér þessi gögn, frú forseti. Þess vegna beini ég þeirri beiðni enn og aftur til frú forseta að nú verði gert hlé á þessum fundi og honum frestað þannig að hv. þingmenn fái hér ráðrúm til þess að öðlast yfirsýn yfir þau gögn sem hafa verið að berast hingað í dag og jafnvel örfáar mínútur til þess að kynna sér þau. Ég sé ekki, frú forseti, að það muni hafa alvarlegar afleiðingar á framgang þessa máls þótt tekið verði stutt hlé á þessum fundi til þess að gefa þingmönnum þjóðarinnar tækifæri á því að kynna sér (Forseti hringir.) þetta mál.