138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég velti fyrir mér hvað er eiginlega í gangi hérna. Hvað getur orðið til þess að forseti Alþingis óski eftir því að þingið fái ekki frekari upplýsingar um mál sem er til umfjöllunar? Hvað í veröldinni getur valdið því að það komi fyrirmæli frá forseta Alþingis um að gagnaöflun skuli hætt þegar vitað er að til eru fleiri gögn, þegar liggur fyrir að hægt er að fá þau send? Ég bendi hæstv. forseta aftur á að við erum ekki öll á sama stað í bókinni vegna þess að við höfum mjög mismunandi gögn í höndunum en svo virðist sem komið hafi skilaboð um að gagnaöflun skuli hætt og málið keyrt í gegn án þess að menn hafi annars vegar tækifæri til þess að fá öll gögn í hendur og hins vegar tækifæri til þess að kynna sér gögn. Þetta háttalag er með mestum ólíkindum og hlýtur að verða mótmælt (Forseti hringir.) kröftuglega af stjórnarandstöðunni, (Forseti hringir.) hvað sem það tekur langan tíma.