138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í fyrsta lagi óska ég eftir að virðulegur forseti svari þeirri spurningu sem komið hefur fram hér ítrekað, hvort möguleiki sé á að fundi verði frestað til þess að fólk geti, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson komst að orði, komist á sama stað í bókinni. Ég held að það væri umræðunni til mikils gagns, eins og hún er núna er hún fullkomlega gagnslaus.

Í öðru lagi vil ég minnast á ummæli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar sem reyndar eru þannig að það er varla svaravert að bregðast við orðum hans. Honum þykir bresk lögmannsstofa vera farin að stjórna því hvernig við högum dagskrá okkar hér á þinginu og vil ég mótmæla því. Ástæða þess að við viljum fá gögn frá þessari bresku lögmannsstofu er sú að okkur tekst ekki að fá gögn frá þessari sömu ríkisstjórn sem hér situr, sem hún hefur undir höndum. (Forseti hringir.) Þess vegna þurfum við, eins ömurlegt og það er, að leita á náðir breskrar lögmannsstofu. (Forseti hringir.) Hver er virðing Alþingis, frú forseti?