138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason „núllaði“ sig út úr umræðunni þegar hann sendi okkur skilaboð frá miðju Atlantshafi um að við ættum að hætta að fjalla um þetta mál og samþykkja það (Gripið fram í.) þann 18. júlí í sumar.

Hann sakaði mig um að fara með rangt mál. Ég óska þess hér með að hann biðjist afsökunar á þeim ummælum. Ég las hér úr tölvupósti sem hefur borist okkur. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór yfir tölvupóstinn, ég þarf ekkert að lesa hann upp aftur (GÞÞ: Frábær þýðing.) — já í frábærri þýðingu — en þar óskar einn af nefndarriturum Alþingis eftir því að tölvupóstar til Alþingis hætti að berast. Þetta er ekki mikið flóknara en það og er hér skjalfest. Hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur verið með digurbarkalegar yfirlýsingar í fjölmiðlum án allra raka og komist upp með það. Ég held að menn ættu frekar að skoða hvað hann er að segja vegna þess að þær fullyrðingar sem (Forseti hringir.) sem hann hefur hér haft frammi (Forseti hringir.) eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.