138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að Icesave-ríkisstjórnin ætli sér að þvinga þetta mál í gegnum þingið með þeim hætti sem málið er í dag. Hér er búið að skrúfa fyrir tölvupóstssendingar, að okkur er sagt. Það er búið að segja upp í opið geðið á hv. þingmönnum að það sé ekkert í þessum gögnum sem þurfi að skoða nánar. Það er mat ríkisstjórnarinnar, Icesave-ríkisstjórnarinnar, sem ætlar að hafa þetta sem sín eftirmæli.

Frú forseti. Fnykinn af þessu máli leggur langar leiðir. Það er alveg ljóst af þeim gögnum sem við höfum þó séð aukalega hér í dag, þeim tölvupóstum, að það þarf að velta við mörgum steinum áður en niðurstaða er fengin í atburðarásina, hvernig og um hvað menn voru að tala og á hvaða forsendum. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin, samninganefndin og stjórnarflokkarnir brugðust íslensku þjóðinni algjörlega í þessu máli.