138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við erum hér í 3. og jafnframt lokaumræðu um ríkisábyrgð á Icesave, einu stærsta máli sem íslensk þjóð hefur staðið frammi fyrir. Þingmenn eru enn að fá í hendur gögn sem hugsanlega geta skipt máli og hefðu skipt máli ef tekið hefði verið tillit til þess sem í þeim stendur. En við erum komin í lokaumræðu, að því að greiða atkvæði um hvort veita eigi fjármálaráðherra heimild til þess að setja ríkisábyrgð á Icesave-reikninga, reikninga sem stofnað var til af hálfu Landsbanka Íslands jafnt í Hollandi sem Bretlandi. Við getum rætt það hér og við getum rætt það síðar hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna og á ábyrgð hverra hún var. Við getum líka rætt um sukkið og svínaríið í fjármálafyrirtækjum landsins og á hvers ábyrgð það var, en við erum hér að ræða um Icesave. Við erum að ræða um samninga sem núverandi ríkisstjórn skipaði samninganefnd til þess að fara á fund Breta og Hollendinga til þess að ná samningum við þá um þá skuldbindingu að Íslendingum bæri að greiða Icesave-skuldina.

Menn greinir á um hvort okkur beri að greiða þessa skuld en við stöndum hér til þess að ræða ríkisábyrgð á þeirri skuld. Alþingi Íslendinga afgreiddi frumvarp til laga 28. ágúst, frumvarp sem 63 þingmenn þjóðarinnar gátu sætt sig við og töldu að þjóðin gæti lifað með. Þeim lögum höfnuðu Bretar og Hollendingar og ríkisstjórn Íslands ákvað að leggja þá nýtt frumvarp fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar eða fyrir hönd Hollendinga og Breta fyrir Alþingi Íslendinga. Það er það frumvarp sem við ræðum núna af því að Bretar og Hollendingar sögðu nei við íslenskum lögum og það er það sem við ræðum.

Mönnum getur þótt margt um þá ákvörðun að Bretar og Hollendingar geti sagt nei við lögum frá Alþingi. Það eru engir samningar þannig og það hafa aldrei neinir samningar verið þannig að ef aðilar segja nei verði þeir teknir upp aftur og menn reyna að semja á nýjan leik. En við erum ekki að gera það. Við erum að taka við óskum Breta og Hollendinga um það hvernig þeir vilja hafa hlutina.

Hér hefur komið fram í umræðu í dag að Elvira Mendez sagði að færu þessir samningar fyrir dómstóla yrðu þeir dæmdir ólögmætir því að svo geigvænlega hallaði á íslenska þjóð í þeim. Það á samt að keyra þessa samninga hér í gegn. Það er allt horfið, það eru allir fyrirvarar horfnir sem Alþingi Íslendinga setti og mér er mikið niðri fyrir að ræða þetta mál. Þá er maður vændur af stjórnarliðum um að maður sé að tefja eða bulla, eða guð má vita hvað, eða sagt að maður sé orðinn handbendi breskrar lögmannsstofu.

Hæstv. forseti. Sem Íslendingur, eiginkona, móðir og amma er mér annt um fjölskyldu mína og þjóð mína. Mér finnast þessir samningar sem við eigum að fara að samþykkja hér og nú óásættanlegir fyrir íslenska þjóð. Og það eru að berast hér gögn í dag, menn ræða hér í dag að hugsanlega á fundi í mars hafi samninganefnd Íslands verið bent á að vegna Heritable Bank í Bretlandi og þeirrar aðgerðar breska fjármálaráðuneytisins að taka þann banka yfir, hefðum við hugsanlega mun sterkari stöðu til samninga en ella. Og hvað? Þessi ráð eru hunsuð, að því er virðist.

Það er búið að ræða í dag og í gær fund sem hæstv. utanríkisráðherra sat með utanríkisráðherra Breta. Það er búið að ræða í dag hvort utanríkisráðherra hafi séð þær glærur sem áður höfðu verið búnar til þar sem m.a. kom fram sú skoðun lögfræðistofunnar Mishcon de Reya, að við ættum góða möguleika í samkomulagi við Breta vegna þess að fjármálaráðuneytið tók yfir Heritable Bank. Það er búið að tala um hvort það hafi verið inni í þeim glærum sem hæstv. utanríkisráðherra sá. Það hefur komið í ljós að það var ekki í þeim glærum sem hæstv. utanríkisráðherra sá. Og hvað sagði hæstv. utanríkisráðherra áðan? Hann sagði að það hefði ekki skipt máli að hann hefði vitað af því þegar hann fór á fundinn með utanríkisráðherra Breta. (Gripið fram í.) Það skipti ekki máli fyrir hann, sem er í forsvari fyrir íslenska þjóð um að verja hagsmuni hennar, að hann vissi hvað hefði staðið í hluta af þeim glærum sem búnar voru til áður.

Ég segi bara: Er ekki allt í lagi á stjórnarheimilinu? Er ekki allt í lagi með hæstv. utanríkisráðherra? Getur hann leyft sér að segja að hann hafi ekki einu sinni þurft að vita af þessum möguleika, að hann hefði hugsanlega getað náð einhverju meira fram en hann sagðist hafa gert? Hann taldi reyndar að þetta hefði verið mjög árangursríkur fundur. Ekki hef ég séð fundargerð þess fundar og ekki veit ég hvað rætt var á þeim fundi en það er alveg ljóst að þeir samningar sem við stöndum frammi fyrir eru ekki góðir. Okkur er þó talin trú um að við hefðum ekki getað fengið betri samninga.

Hér fáum við þingmenn inn gögn þar sem lögmannsstofa í Bretlandi, sem sumir segja að sé virt, aðrir segja að sé einskis virði og sumir segja að stjórni Alþingi Íslendinga, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason. En þessi lögmannsstofa hefur a.m.k. haft, umfram marga aðra, hagsmuni Íslendinga að leiðarljósi því að hún bendir á möguleika fyrir hönd okkar þjóðar. Það er meira en virðist vera hægt að segja um margan annan, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)

Það er með ólíkindum, frú forseti, að við skulum nú, klukkan fimm 30. desember, enn vera að ræða í 3. umr. um Icesave og ríkisábyrgðina á Icesave-samningunum þegar við ættum að hafa frestað fundi, gefið fjárlaganefnd og þingmönnum öllum meira og betra tækifæri til þess að fara yfir þessi gögn sem enn eru að berast, sem sumum finnast einskis virði. En það vekur virkilega tortryggni að það megi ekki fara í gegnum þetta frá a til ö og kryfja þessi gögn til mergjar, skoða og velta upp hvort eitthvað sé hugsanlega satt og rétt sem hér stendur og hvort hugsanlega hefði mátt gera eitthvað betur en gert var. Menn geta ekki leyft sér að standa svo í ræðustól og segja við okkur þingmenn að við megum ekki hafa skoðun á því að okkur finnist hugsanlega að samninganefnd Íslands hafi ekki staðið sig nógu vel. Með fullri virðingu fyrir hæstv. utanríkisráðherra ætla ég að hafa skoðun á því, frú forseti: Samninganefndin hefur bersýnilega ekki staðið sig nógu vel.

Það sem er miklu verra er að allt í kringum þessa samninga er gert tortryggilegt. 3. júní segir hæstv. fjármálaráðherra að við verðum upplýst þá og þegar um hvernig hlutirnir muni verða. 5. júní var skrifað undir samninga. Það voru tveir dagar á milli, rosalega voru þeir snöggir miðað við vitneskju hæstv. fjármálaráðherra eða það sem hann gat um hér í þinginu. Það tók þá tvo daga að klára samningana sem undirritaðir voru 5. júní.

Á nefndasviði Alþingis eru tugir, hundruð ef ekki þúsundir skjala tengd þessu máli og ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni þegar hann sagði hér í dag og í gær að það er kolrangur tími sem við veljum til að fara í 3. umr. um Icesave-málið. Hér er fólk að vinna að fjárlögum í desembermánuði, sjálfsagt erfiðustu fjárlögum íslenskrar þjóðar á sama hátt og þetta mál er eitthvert það erfiðasta sem íslensk þjóð hefur staðið frammi fyrir, og tíminn er oft versti óvinurinn. Ef það á að þvinga í gegn atkvæðagreiðslu í dag um þetta mál án þess að 63 þingmenn hafi fengið tækifæri prívat og persónulega til þess að fara í gegnum þá pósta, þau bréf og þær fréttatilkynningar sem berast nú, er það einfaldlega óásættanlegt. Og það er gróf íhlutun af hálfu forseta Alþingis að leyfa sér að senda póst þar sem sagt var að ekki ætti að framsenda fleiri pósta frá þessari lögmannsstofu í Bretlandi.

Frú forseti. Ég óska þess sem einn af varaforsetum þingsins að kallað verði til fundar í forsætisnefnd þingsins þar sem þetta mál verði rætt, vegna þess að þetta er gróf íhlutun í rétt þingmanna og upplýsingaöflun. Það getur ekki verið í verkahring hæstv. forseta Alþingis að ganga þannig fram fyrir skjöldu og meina þingmönnum að fá þær upplýsingar sem þeir óska eftir í þessu mikilvæga máli. Þetta er verulega dapurlegt, frú forseti.

Það er líka verulega dapurlegt þegar misskilningur er svo ríkur og sterkur að embættismenn íslenska ríkisins rugla annaðhvort saman eða muna ekki eftir því að hafa verið á tilteknum fundum með tiltekinni lögmannsstofu um tiltekið stórmál sem heitir Icesave. Það er verulega dapurlegt og vekur talsverða tortryggni, svo ekki sé meira sagt.

Hrun íslensku bankanna, staða íslensks efnahagslífs, atvinnulífs, fjölskyldnanna í landinu er dapurlegt, það er ömurlegt. Við gætum hugsanlega gert margt miklu betur en við höfum gert og ættum að vera að gera. Þessi samningur sem liggur fyrir Alþingi Íslendinga til samþykktar eða synjunar mun að mínu mati ekki undir nokkrum kringumstæðum bæta þá stöðu sem íslenskt samfélag er í miðað við þá útreikninga sem gerðir hafa verið og þeim hefur svo sem líka verið hafnað og þeir gerðir tortryggilegir. Þá eigum við að greiða á tímabilinu 2014–2018 í kringum 150 milljarða í vexti í erlendum gjaldeyri. Börnin mín og barnabörn eiga að taka að sér, ásamt fjölda annarra barna og barnabarna, að greiða þessa skuld.

Ég ætla að leyfa mér að hafa þessi orð hér sem lokaorð: Ég trúi því ekki, frú forseti, fyrr en ég tek á því að Alþingi Íslendinga ætli að greiða atkvæði um þennan samning í kvöld og ég trúi því ekki að hann verði samþykktur. (Gripið fram í.)